141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við getum ekki verið án náttúrunnar, þrífumst ekki án hennar. Þess vegna þurfum við að fara vel með hana. Náttúran getur verið án okkar. Það er áhyggjuefni inn í nýja öld hvort maðurinn beri gæfu til að ganga af skynsemi um náttúruna og þar með að búa komandi kynslóðum lífvænleg skilyrði.

Þegar hv. þingmaður notar það orðalag að sú sem hér stendur hafi breytt samkomulagi endurspeglar það hvað hann telur að málið snúist um. (Gripið fram í.) Það er verkefni og hlutverk ráðherra að fara að lögum. Þegar við fáum tillöguna eftir umsagnarferlið gerum við á henni breytingar á grundvelli umsagna og fyrir því er gerð grein í þingsályktunartillögunni. Það er það sem er gert. Hvaða samkomulagi er þá verið að breyta eða brjóta? Er það samkomulag við sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn? Okkur ber að eiga þetta samtal við almenning, virðulegur forseti.

Ég vil óska eftir því að í umræðunni í framhaldinu horfist sjálfstæðismenn í augu við þá staðreynd að þeir studdu mótatkvæðalaust núverandi löggjöf, en mæla núna fyrir breytingum á henni og þær breytingar eru allar í þágu nýtingar. Af hverju?