141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[13:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Rammaáætlun, þingsályktunartillaga hæstv. umhverfisráðherra, var til umræðu og umfjöllunar í atvinnuveganefnd í vor. Það er nauðsynlegt að fram komi að þar fór fram ágæt vinna. Málið var sent til umsagnar og nokkur samstaða var í nefndinni um málsmeðferðina. Í sjálfu sér hefði nefndinni verið ekkert að vanbúnaði að ljúka við og vinna þingsályktunartillöguna aftur inn til þingsins. En síðustu þrjár vikurnar, jafnvel fjórar, sem liðu af þinginu í vor og sumar var aldrei fundað í atvinnuveganefnd. Málið var ekki tekið til umfjöllunar. Ástæðan var auðvitað sá ágreiningur sem er innan stjórnarflokkanna, milli þeirra og innan þeirra, um þá tillögu sem fyrir liggur. Hann er augljós. Kattasmölun hæstv. forsætisráðherra hafði greinilega ekki gengið nægilega vel til þess að hafa áhrif inn í atvinnuveganefndina. Því kaus hæstv. ríkisstjórn að atvinnuveganefnd skyldi ekki ljúka störfum við rammaáætlun síðastliðið vor.

Við sjáum þetta síðan endurspeglast í þeirri ákvörðun þingsins að vísa málinu til umhverfis- og samgöngunefndar þrátt fyrir að óyggjandi sé og eðlilegt, ef málið er skoðað samkvæmt þingsköpum og samkvæmt því markmiði sem ætlað er að ná með rammaáætlun, að það ætti að ganga áfram til atvinnuveganefndar.

Það segir í erindisbréfi til verkefnisstjórnar frá ágúst 2007 að henni sé ætlað að ákveða hvernig haga eigi mati á virkjunarkostum í þeim áfanga sem og að vinna samræmt heildarmat fyrir alla virkjunarkosti. Málið fjallar um þessa virkjunarkosti og það er í sjálfu sér ekkert hægt að deila um það. Vegna hins augljósa ágreinings í ríkisstjórnarflokkunum var þessi leið valin.

Það markmið sem menn settu sér með því að fara í þá miklu vinnu sem unnin hefur verið við rammaáætlun liggur fyrir. Það var að reyna að ná málamiðlun um þennan mikilvæga málaflokk og þann djúpstæða ágreining sem hefur verið í samfélaginu um forgangsröðunina þegar kemur að hinni fínu línu milli verndunar og nýtingar.

Eins og fram hefur komið var með skipun verkefnisstjórnar 2007 lögð aukin áhersla á verndunarþáttinn í vinnu við rammaáætlun. Það var í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þar sem þessi aukna áhersla á umhverfismál var lögð.

Það er ljóst að þegar hæstv. umhverfisráðherra lætur þau orð falla í þingræðu áðan að innan Sjálfstæðisflokksins séu engir talsmenn fyrir verndun og nýtingu náttúrunnar stenst það ekki nánari skoðun. Þetta eru sleggjudómar sem eru í raun bara ómerkilegt innlegg í umræðuna. Það sést af öllum okkar verkum að slíkt fær ekki staðist neina skoðun. Það má í því sambandi minna á áherslur flokksins við friðlýsingu landsins, fjölgun þjóðgarða o.s.frv. Það hefur engin þjóð gengið lengra í því að vernda jafnstóran hluta lands síns og við Íslendingar. Lengst af hefur það verið gert undir forustu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Við tökum því ekki mikið mark á slíkum athugasemdum sem eru frekar ómerkilegt innlegg í umræðuna.

Spurt hefur verið hvaða áhrif rammaáætlun hefur á efnahagsumhverfi okkar. Það er eðlilegt að spurt sé, en auðvitað leikur rammaáætlun og framgangur hennar lykilhlutverk. Það þarf ekki annað en horfa á þær áherslur sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa lagt og ákall þeirra eftir frekari fjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Það sýnir hversu mikilvægt er að þær fari af stað og um það eru allir sammála. Það hefur ekki verið minna fjárfest í íslensku atvinnulífi í áratugi en nú eða jafnvel nokkru sinni á lýðveldistímanum.

Því hefur verið haldið fram, meðal annars af forustu Alþýðusambands Íslands, að ríkisstjórnin hafi staðið í vegi fyrir fjárfestingum. Sú málsmeðferð sem rammaáætlun fær hjá ríkisstjórnarflokkunum er í raun hluti af því púsli vegna þess að eins og þingsályktunartillaga hæstv. umhverfisráðherra ber með sér verður ekkert haldið áfram á þeim vettvangi sem að gagni kemur á næstu árum. Það má því segja að það bætist á þann lista svikinna loforða sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.

Það var mikil sátt og almennt talað af virðingu um þá vinnu sem fór fram í verkefnisstjórninni og innan faghópa sem unnu rammaáætlun. Það er auðvitað grundvallaratriði að sú vinna og það verklag sem þar var viðhaft njóti trausts. Það var lagt upp með það á sínum tíma af þeim sem áttu hugmyndina um að koma þessu ferli af stað, að áætlunin yrði unnin af fagmennsku og án þess að pólitísk sjónarmið réðu í þeirri vinnu. Það er ekki fyrr en á lokametrum vinnunnar sem hin pólitísku fingraför, eins og það hefur verið kallað, koma inn í málið. Þá er farið að túlka hluti eins og gert er í þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir frá hæstv. umhverfisráðherra.

Það vinnulag ráðherrans að setja málið í umsagnarferli er ekki dregið í efa. Það var ákveðið í lögum að slík skyldi málsmeðferðin vera. Það kom fram áðan hjá hæstv. ráðherra í ræðu að þær breytingar sem þá voru gerðar hefðu verið vel rökstuddar og tekið hefði verið tillit til þeirra fjölmörgu umsagna sem bárust, jafnvel þótt þær hafi nú áður verið komnar fram hjá verkefnisstjórninni. Þessar breytingar hafi verið mjög vel rökstuddar. En í athugasemdum sem bárust um málið frá fjölmörgum aðilum síðastliðið vor kom ítrekað fram að þær breytingar sem hæstv. ráðherrar gerðu á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, ef við getum orðað það þannig eða niðurstöðu rammaáætlunar, væru illa rökstuddar. Um þetta eru menn því ekki sammála.

Ég held að ef þetta er skoðað geti menn fallist á að sú er staðan, breytingarnar eru illa rökstuddar. Þetta ber með sér allt of mikinn pólitískan blæ. Það eru til að mynda hlutir í áætluninni sem hvorki standast skoðun um flokkun í nýtingarflokk né biðflokk, jafnvel kostir sem eiga augljóslega að fara í verndarflokk, eins og ég fór yfir í ræðu minni í gær. Það vantar heilmikið upp á rökstuðninginn. Ég ætla ekki að fara yfir einstaka virkjunarkosti í því samhengi aftur.

Allt þetta verður sennilega til þess að þessi mikla vinna er því miður fyrir bí. Ég óttast það. Málið er komið í þann farveg að sú málamiðlun sem var vonast til að við gætum unnið þetta mál eftir er sennilega fyrir bí. Það má segja að ágreiningurinn kristallist mjög í þeirri ákvörðun að setja málið til umhverfis- og samgöngunefndar í stað atvinnuveganefndar. Það opinberar hinn djúpstæða ágreining innan stjórnarflokkanna og hverjir urðu ofan á innan þeirra raða við áframhaldandi vinnu við málið.

Í öllu því ferli frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér og þar til málinu var skilað til þingsins hefur aðkoma stjórnarandstöðunnar verið engin. Engin tilraun hefur verið gerð til að ná sátt um það hvernig þetta megi líta út, heldur er þetta unnið í mjög þröngum hópi ráðherra og innan ríkisstjórnarflokkanna. Ef við ætlum okkur til framtíðar í fullri alvöru að ná að vinna þetta sem málamiðlun á milli mismunandi skoðana sem ríkja getum við ekki unnið þannig.

Vilji okkar sjálfstæðismanna stendur vissulega til málamiðlunar og ég fór í gær meðal annars yfir virkjunarkosti sem mér finnst augljóslega að eiga að fara í vernd. Við höfum nefnt virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár og forgangsröðun þeirra. Ef horft er á þetta má sjá að í málflutningi okkar er mjög mikill sáttahugur. Við gerum okkur grein fyrir því að hinir ýtrustu valkostir gagnvart virkjunum verða ekki ofan á, en að sama skapi gerum við þá kröfu að við getum haldið áfram á þessum mikilvæga vettvangi. Þá getum við mætt vilja fólksins í landinu og aðila vinnumarkaðarins til að byggja áfram upp öflugt atvinnulíf.

Yfirlýsingar ákveðinna stjórnarliða um að menn vilji reyna að vinna að sátt um málið virðast því vera marklausar og innihaldslitlar. Aðra ályktun getur maður ekki dregið af þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í málinu.

Áðan var sagt að tillögur okkar sjálfstæðismanna, sem við fjöllum hér um, séu til þess fallnar að draga úr opnu samráði, Sjálfstæðisflokkurinn vilji forðast opið samráð. Ég vil bara minna á hið mikla opna samráð verkefnisstjórnarinnar. Meira en 30 samráðsfundir voru haldnir úti um allt land með hagsmunaaðilum. Allir í samfélaginu, hvar sem þeir stóðu, gátu komið að þeirri vinnu á hverjum tíma og komið athugasemdum sínum á framfæri. Það er það verklag sem við lögðum upp með og vildum að yrði viðhaft í þessari vinnu. Við lögðum áherslu á það. Þannig að þegar við erum vændir um að náttúruverndarsjónarmið og opið samráð og eitthvað slíkt eigi enga málsvara innan Sjálfstæðisflokksins er það ómerkilegur málflutningur og síst til þess fallinn að reyna að ná sátt og einhverjum umræðugrundvelli um þetta mikilvæga mál.

Allt í þessari vinnu fjallar um náttúruvernd. Allt í vinnu við rammaáætlun fjallar um náttúruvernd og hina fínu línu milli nýtingar náttúrunnar og verndunar hennar. Þrátt fyrir að við séum með tillögu okkar að opna fyrir ákveðna hluti varðandi rannsóknir er alveg ljóst að ef við ætlum að geta metið virkjunarkosti, til dæmis í biðflokki, verður að vera hægt að gera einhverjar grundvallarrannsóknir.

Von mín, virðulegi forseti, er að við getum komið málinu til baka í það faglega ferli (Forseti hringir.) sem það var í. Það er tillaga okkar sjálfstæðismanna. Þannig komi málið til þingsins aftur og geti orðið grundvöllur (Forseti hringir.) að vinnu til að ljúka því í vetur.