141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[13:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins leggjum hér fram öll sem eitt.

Ég er afskaplega ánægð með að sjá þetta frumvarp koma frá þingflokki sjálfstæðismanna, enda lýsir það í hnotskurn þeirri stefnu sem flokkurinn hefur gagnvart rammaáætlun, þ.e. flokkurinn telur mikilvægt að rammaáætlun verði sett og hún verði gerð á þeim faglega grunni sem lagt var upp með. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart, enda var Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn með Samfylkingunni þegar verkefnisstjórn yfir 2. áfanga rammaáætlunar tók til starfa og var skipuð. Í skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hefur einsett sér að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða og leggur því mikla áherslu á að ljúka sem fyrst rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar, með sérstaka áherslu á mat á verndargildi háhitasvæða landsins og flokkun þeirra með tilliti til verndar og orkunýtingar.“

Þessi vinna tók langan tíma og lengri tími fór í þetta verkefni en þurfti vegna þess að Alþingi var ekki búið að klára lagarammann utan um það með hvaða hætti verkefnisstjórnin skyldi skila af sér til þingsins og hvernig málið kæmi inn í þingið. Nú er það allt saman komið fram.

Frumvarpið er í rauninni svar við þeim mikla vanda og þeim ógöngum sem málið er því miður komið í. Þingmenn allra flokka hafa lýst því yfir hér í þessum stól núna og á fyrra kjörtímabili hversu ánægðir þeir eru með að setja málið í þetta faglega ferli. Tilgangurinn með þessu öllu saman var sá að reyna að skapa sátt milli þeirra ólíku sjónarmiða sem uppi eru í samfélaginu og hafa verið á undanförnum missirum varðandi vernd og nýtingu. Mér finnst þessi hugmyndafræði afskaplega mikilvæg og finnst afskaplega gott að hún varð ofan á og að þessi vinna færi fram.

Málið sem við ræðum í dag undirstrikar það að sú vinna verður að ná allt til enda þess að rammaáætlun verði lögð fram, að öðrum kosti erum við því miður að horfa fram á ósætti en ekki sátt. Það er ekki það sem átti að gerast með fyrirkomulaginu um skipun verkefnisstjórnar.

Úr því að aðrir þingmenn úr mínum flokki sem hafa tjáð sig hér fóru ekki sérstaklega í sérstök ákvæði frumvarpsins þá langar mig til að gera það, svo það liggi nú fyrir hér í þingsögunni.

Í fyrsta lagi leggjum við til breytingu á 3. gr. laganna. Það er sú grein sem fjallar um það að þeir kostir sem þegar eru á friðlýstum svæðum komi ekki til mats, fari ekki gegnum þetta ferli sem rammaáætlunin er. Hér er einfaldlega tillaga sem byggir í rauninni á því sjónarmiði að engin ástæða er til að vera feiminn við það að láta þá virkjunarkosti sem eru inni á friðlýstum svæðum fara í gegnum þetta mat verkefnisstjórnar. Ef við trúum á aðferðafræðina eigum við ekkert að vera hrædd við það að setja hvaða kost sem er þar í gegn. Virkjunarkostur sem er á slíku svæði og augljóst að hann væri mikilvægur með tilliti til náttúruverndar mundi alltaf fara í gegnum þessa aðferðafræði og mælingar verkefnisstjórnarinnar og lenda í verndarflokki. Það er augljóst. Og til að jafnt gangi yfir alla og að við höfum einfaldlega samanburð á þeim kostum sem virkilega eru verndarinnar virði, þá á fólk ekkert að vera feimið við að láta þá fara þarna í gegn.

Ég kallaði hér eftir tölum í máli hæstv. ráðherra í gær, en þær komu ekki, um þá kosti sem detta úr út matinu vegna þessa lagaákvæðis — sérfræðingum okkar hefur talist svo til að áætluð raforkugeta í vatnsafli og jarðhita innan friðlýstra svæða sé 14.081 gígavattstund, þannig að það komi fram í þingtíðindum, vegna þess að það gerði það ekki hér í gær þrátt fyrir að kallað hefði verið eftir því.

Þá er það 2. gr. frumvarpsins. Þar erum við að fjalla um breytingar á hinum svokallaða biðflokki. Biðflokkurinn og ákvæðið um hann í 5. gr. í lögunum hefur verið skilgreint mjög þröngt, þ.e. að enginn kostur megi falla í biðflokk ef vantar einhverjar upplýsingar. Nú getum við deilt um það hvort þetta orðalag þýði það í raun og veru, en gott og vel. Ef það er viljinn að hafa biðflokkinn þannig að hann sé þröngur, þá þarf jafnframt að tryggja að það sé alveg skýrt hvers vegna kostur lendi í biðflokki. Þess vegna er hér tillaga um að verkefnisstjórnin skuli tiltaka sérstaklega hvaða upplýsingar nákvæmlega það eru sem vantar þannig að hægt sé að ljúka flokkun orkunýtingarkostsins annaðhvort í vernd eða nýtingu. Það er afskaplega mikilvægt, þannig að girt sé fyrir það að verið sé að setja kosti í biðflokk af því að óþægilegt er að taka ákvörðun um það.

Ég held að þetta væri mjög til bóta og verði að vera mjög skýrt, jafnframt fyrir þá sem velta því fyrir sér að fara í að nýta þennan kost, að þeir séu með algjörlega á hreinu hvað það er sem upp á vantar og þeir standi þá á traustum grunni, vegna þess að bara það að virkjunarkostir lendi í biðflokki þýðir auðvitað að það yrði örugglega mjög erfitt að halda áfram rannsóknum á þeim kosti. Hver á að fjármagna slíkar rannsóknir þegar mikil óvissa er um hvort hann verði nokkurn tímann virkjaður? Þau sjónarmið komu fram í meðförum frumvarpsins á sínum tíma hér í þinginu.

Þá komum við að b-liðnum þar sem fjallað er um heimildir til að veita rannsóknarleyfi á kostum sem eru í biðflokki. Núna er staðan sú að lendi kostur í biðflokki er í rauninni ekkert hægt að gera annað en það að fara í yfirborðsrannsóknir. Í mörgum þeim kostum sem eru núna í þeirri tillögu sem liggur frammi og lögð er fram af ráðherra hafa slíkar rannsóknir farið fram nú þegar. Það er kannski erfitt, sérstaklega varðandi háhitann, því að í rauninni verður kosturinn um aldur og ævi væntanlega bara fastur í biðflokki. Hvernig á að afla upplýsinganna ef ekkert má gera? Ég veit að það er mjög erfitt að finna línuna þarna á milli, hvað það er sem á að heimila og hvað ekki, en það að heimila engar rannsóknir þýðir að verið er að segja að ekki verði hægt að afla upplýsinga varðandi orkugetu o.s.frv. á háhitasvæðum. Einhvern veginn þarf að ná að koma því þannig fyrir að það sé hægt. Þessi b-liður er viðleitni í þá átt að tryggja að það verði hægt.

Þá er gert ráð fyrir að 4. mgr. 5. gr. falli brott.

Síðan erum við að tala um í 3. gr. breytingu á 6. gr. þar sem fjallað er um óflokkaða virkjunarkosti. Þá erum við að tala um nýja kosti sem koma til og hvaða heimildir eigi að vera til staðar til að hægt sé að leggja fram einhver gögn til verkefnisstjórnar um hvaða kost væri um að ræða. Ef það væri einungis hugmynd og ekkert hefði verið rannsakað og engin gögn liggja fyrir yrði afskaplega erfitt fyrir verkefnisstjórn að taka einhverja afstöðu til þess kosts. Einhvern veginn þarf að vera hægt að leggja fram gögn og safna þeim saman.

Síðan er það 4. gr. Þar fjöllum við um breytingu á 5. mgr. 10. gr. laganna þar sem fjallað er um verklag og málsmeðferð. Hér leggjum við til að ráðherra muni leggja tillögur verkefnisstjórnar óbreyttar fram á Alþingi og það verði reglan. Þar með erum við að ítreka þann vilja okkar, og allra þeirra að því er ég held sem hafa tjáð sig um þessi mál fyrr og síðar, að hin faglega niðurstaða komist alla leið hingað inn í þingið. Þá tekur að sjálfsögðu við þingleg meðferð eins og við þekkjum hana og menn geta þá tjáð sig um þessa tillögu verkefnisstjórnar.

Við erum hér að reyna að segja að það sé óeðlilegt að ráðherra taki hina faglegu niðurstöðu verkefnisstjórnar og breyti henni eftir sínu höfði og eftir sínum pólitísku áherslum, eins og ég tel því miður að núverandi tillaga hæstv. ráðherra umhverfismála beri með sér. Mér fannst það einfaldlega kristallast í umræðunni í gær þegar reynt var að rökstyðja það að ákveðnir kostir væru færðir niður í biðflokk úr nýtingarflokki á grundvelli þess að ekki hefði verið fjallað um víðerni af hálfu verkefnisstjórnar þegar það er augljóst af lestri skýrslunnar að bæði faghópur 1 og faghópur 2 fjölluðu sérstaklega, og var eiginlega þungamiðjan að mörgu leyti í þeirri umfjöllun, um víðerni og hvaða áhrif hugsanlegir virkjunarkostir mundu hafa á ósnortin víðerni.

Í 5. gr. fjöllum við um breytingu á ákvæði til bráðabirgða í lögunum, sem ég held að þurfi ekki sérstakrar skýringar við. En í 6. gr. tölum við um nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem við leggjum til að ráðherra skuli við gildistöku þessara laga kalla saman að nýju verkefnisstjórnina sem skilaði þessari skýrslu í 2. áfanga rammaáætlunar og fela verkefnisstjórninni að flokka þá virkjunarkosti sem hún hefur fjallað um og á að gera samkvæmt lögunum eins og þau líta út eftir samþykkt þessa frumvarps.

Verkefnisstjórnin á að byggja flokkun sína á grundvelli þeirrar röðunar og þeirra gagna sem hún aflaði sér við vinnu sína. Mig langar að gefnu tilefni að taka það fram að verkefnisstjórn hafði víðtækt samráð og stóð fyrir víðtæku og mjög umfangsmiklu kynningarferli á niðurstöðum sínum. Ég vísa því til föðurhúsanna að við séum hér að reyna að hindra það að almenningur og allir þeir sem hafa skoðanir á þessum málum komist að til að láta hugmyndir sínar í ljós. Það hefur margoft gefist tilefni til þess. Verkefnisstjórnin hefur tekið á móti athugasemdum, verkefnisstjórnin hefur farið yfir þær athugasemdir og verkefnisstjórnin brást við þeim athugasemdum.

Ég leyfi mér einfaldlega að fullyrða að þetta samráð og þetta opna ferli eigi sér fáar hliðstæður í stjórnsýslu okkar og áætlanagerð. Það var mjög gott að efna til þess. Það byggðist allt saman á þeirri hugmyndafræði sem lagt var upp með þegar verkefnisstjórnin var skipuð í október 2007.

Að mörgu leyti rímar þessi tillaga við þá stefnu sem birtist okkur í erindisbréfi verkefnisstjórnarinnar þar sem fram kemur að gert sé ráð fyrir að verkefnisstjórnin flokki virkjunarkosti með tilliti til þeirra sjónarmiða sem tiltekin eru í erindisbréfinu, þ.e. með tilliti til verndar og nýtingar.

Ágætar umræður hafa verið í dag um þessa áætlun. Ég verð að segja að ég er afskaplega stolt af því að sjá þessa samheldni þingflokks sjálfstæðismanna í málinu í ljósi þess hvernig fólk brást við þeirri tillögu sem ráðherrann lagði fram eftir að augljóst var að verið er að koma pólitískum áherslum inn í þá tillögu sem ráðherrann lagði fram. Það hefði verið hægt og umræða varð um það, bæði í þinginu og í samfélaginu, að það yrði bara þannig að þegar skipt yrði um ríkisstjórn yrði rammaáætlun öll tekin upp og nýjar áherslur kæmu þar inn. Það væri það versta sem mundi gerast að mínu mati. Þá værum við búin að henda þessu ferli hér sem hefur staðið yfir í mörg ár og taka upp einhvers konar allt önnur og verri vinnubrögð.

Þess vegna finnst mér gott að sjá þá áherslu hjá þingflokknum í heild að fylgja eigi því ferli sem sett var af stað fyrir mörgum árum allt til enda þannig að við horfum á hina faglegu vinnu og láta hana ráða þeirri niðurstöðu sem kemur til meðferðar í þinginu. Mér finnst það í rauninni algjörlega frábært, ef ég má taka svo til orða.

Herra forseti. Auðvitað verður það þannig að þegar svo niðurstaða verkefnisstjórnar kemur verða ekkert allir hoppandi kátir með öll atriði sem munu birtast okkur í þeirri tillögu, alls ekki. Hvert okkar hér inni hefur sínar sérstöku skoðanir á hinum einstöku virkjunarkostum sem byggðar eru á hinum og þessum sjónarmiðum, þeirra eigin tilfinningum, tengslum þeirra við einhver ákveðin landsvæði, afstöðu þeirra til atvinnumála, afstöðu þeirra til ferðaþjónustu o.s.frv.

Ef við hugsum aðeins út fyrir okkar eigin pólitísku framtíð og pólitísku stöðu eigum við stjórnmálamenn að hafa þroska til að taka hinum faglegu niðurstöðum og fylgja þeim. Ég hef þá trú að það sé hægt. Ég trúi því virkilega að Alþingi og alþingismenn geti sýnt þann þroska að gera það.

Þess vegna hef ég sannfæringu fyrir því að ef málið verði unnið á þann hátt eins og við leggjum til muni þetta allt saman koma vel út og vera okkur öllum til sóma. Ég skora á þingmenn að reyna að tileinka sér það hugarfar. Náttúran á það skilið af okkur.