141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég verð að viðurkenna að þegar ég sá fyrstu drögin frá hópnum sem ráðherra fól að búa til fyrstu drögin að þingsályktunartillögu um rammaáætlun brá manni við að sjá hversu stór hluti fór í afgerandi niðurstöðu. Við vinnslu málsins hélt maður að fleiri kostir yrðu settir í bið.

Þá kom einfaldlega til sú skoðun að biðflokkurinn hefði verið skýrður það þröngt í þinginu og að það bæri að túlka lögskýringargögn með þeim hætti að ekki mætti setja kost í biðflokk nema algjörlega ljóst væri að ákveðnar upplýsingar vantaði. Ég held að það sé ekkert leyndarmál að ýmsir innan verkefnisstjórnarinnar voru svolítið hissa á þessu, þeim kom svolítið á óvart að þetta yrði niðurstaðan. En eins og ég segi, verkefnisstjórninni var ekki falið að flokka á endanum þannig að við höfðum svo sem ekkert um þetta að segja.

Hér er auðvitað verið að taka ákvarðanir til lengri framtíðar, afskaplega stórar ákvarðanir, eins og ein sem sat með mér í verkefnisstjórninni sagði. Hvað biðflokkinn varðar þá takast á tvö sjónarmið, annars vegar að hafa fleiri kosti í biðflokki til að menn taki ekki svona stórar ákvarðanir um svo marga kosti langt fram í tímann og hins vegar að nota ekki biðflokkinn sem þægilegt undanskot til þess að menn þurfi ekki að taka ákvörðun í erfiðum málum, og ég skil og virði það sjónarmið. Ég vil heldur ekki að allir kostir sem við eigum erfitt með út af tilfinningalegum rökum að taka ákvarðanir um (Forseti hringir.) lendi í biðflokki af því að það er miklu þægilegra. Auðvitað á hann ekki að vera þannig og ég skil það sjónarmið.