141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þótt ég hafi trú á þeirri aðferðafræði sem beitt var og því sem verkefnisstjórnin var að gera og vinnu faghópanna sem var afskaplega vönduð — menn gerðu allt sem þeir gátu til að þróa aðferðafræðina þannig að hún væri sem best — þá er hún auðvitað mannanna verk. Hana þarf að þróa áfram, sérstaklega varðandi faghóp III. Þetta er auðvitað viðfangsefni sem er svolítið nýtt, að menn setjist yfir þessi mál á þennan hátt, og þetta mun vonandi þróast frekar í framtíðinni þannig að við ráðum betur við viðfangsefnið. Engu að síður var mikilvægt að reyna að komast að niðurstöðu og að verkefnisstjórnin skilaði af sér, það var óumflýjanlegt.

Hvað framtíðin ber í skauti sér er mjög erfitt að segja til um, sérstaklega þá tækni sem hægt er að nota til þess að virkja á háhitasvæðum til dæmis, varðandi skáboranir o.s.frv. Það má hugsa sér að hægt verði í framtíðinni að virkja á svæði innan friðlands án þess að nokkur merki sjáist á yfirborði. Þetta er svo erfitt, maður getur ekki séð fyrir hvernig tæknin mun þróast. Þess vegna er ágætt að horfa á ákvæðið í lögunum sem fjallar um að verkefnisstjórn geti endurmetið kosti, hvort heldur sem er til að færa þá úr nýtingarflokki eða í verndarflokk. Það að taka kosti úr vernd þýddi að það þyrfti að „affriðlýsa“ einhver svæði, ef svo má segja, breyta þeirri ákvörðun sem tekin er í rammaáætlun, og fara öfuga leið með þá kosti sem eru í nýtingu. Það er því hægt en hvort það verði algengt eða auðvelt getur maður ómögulega sagt til um. Ákvæðið verður að minnsta kosti í lögunum, sama hvernig því verður beitt.

Varðandi upplýsingaskortinn og þá kosti sem voru metnir langar mig örstutt að tala um friðlýstu kostina vegna þess að í friðlýsingarferlinu á þeim kostum (Forseti hringir.) sem komu ekki til mats var ekkert endilega fjallað um virkjanir. Það hefur því ekki verið fjallað um þessar friðlýsingar, til dæmis í heimabyggð, (Forseti hringir.) út frá þeim sjónarmiðum. (Forseti hringir.) Þess vegna finnst mér mikilvægt að þær komi til mats.