141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:25]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vísa þeirri staðhæfingu algjörlega til föðurhúsanna að hér sé einhver minni hluti að kúga meiri hlutann. Meirihlutavilji Alþingis á eftir að koma í ljós. Þetta er bara ekki rétt og umsagnir fjölda fólks og samtaka í samfélaginu skipta hér mestu máli. Hvað er það sem þörf er á í samfélaginu til framtíðar, en ekki bara hvað okkur finnst hér og nú?

Ég ætlaði alls ekki að saka hv. þingmann um að hugsa almennt svart og hvítt. Ég var að reyna að benda á að þegar kæmi að þessum skilum milli verndar og atvinnusköpunar varðandi þetta tiltekna atriði hljómaði það þannig.

Ég vil þá inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé ekki sammála mér um að það séu í raun ekki svarthvít skil, eins og mér hefur stundum fundist koma fram í máli hv. þingmanns, hvort ekki felist mikil atvinnusköpun og verðmætasköpun í vernd, eins og Samtök ferðaþjónustunnar, kvikmyndagerðarmenn og fleiri hafa bent á í umsögnum sínum.

Ég var á Höfn í Hornafirði fyrir stuttu. Þar var fólk úr öllum flokkum að tala um atvinnumöguleikana og uppbyggingarmöguleikana sem tengjast Vatnajökulsþjóðgarði. Það er það sem ég er að reyna að segja, við verðum að líta á fjölda möguleika en ekki bara að virkja svæði eins og það sé eini atvinnuskapandi möguleikinn í stöðunni og sé hann ekki samþykktur séu allir aðrir atvinnuskapandi möguleikar ómögulegir. Það er ekki þannig.

Ég held að á alþjóðavísu sé það (Forseti hringir.) mál manna að ósnortin víðerni úti í heimi verði sífellt meiri verðmæti því að þeim fari ört fækkandi á heimsvísu. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir skilgreining á þeim.