141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[14:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt þá hefur þetta málefni verið til umræðu áður og meðal annars lagði hv. fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson, fram frumvarp sem efnislega gekk í þessa átt fyrir sennilega tveimur árum og jafnvel fyrr ef ég man rétt. En alla vega liggur þarna fyrir tillaga ráðuneytisins eða hæstv. ráðherra um útfærslu á þessu ákvæði og ég vona að með því móti megi leysa það mál sem þarna er um að ræða.

Þarna er annars vegar um að ræða það sem við getum sagt að séu mikilvæg réttindi fatlaðs fólks til að fá aðstoð frá einstaklingi sem það treystir í þessari stöðu. Hins vegar hafa komið fram ákveðin varúðarsjónarmið sem varða það að fatlaður einstaklingur verði ekki settur í þá stöðu að vera einhverjum háður sem síðan kemur og greiðir atkvæði fyrir hans hönd. Ég vona (Forseti hringir.) að við séum með þessu móti að finna hið eðlilega jafnvægi milli þessara tveggja sjónarmiða.