141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[14:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með að hæstv. ráðherra leggi fram þetta frumvarp til að laga kosningalögin. Nú er það af mismunandi ástæðum sem fólk getur ekki kosið sjálft. Sumir geta það ekki vegna þess að þeir eru hreyfihamlaðir. Aðrir geta það ekki vegna þess að þeir eru blindir og þetta er tvennt ólíkt.

Sá sem er hreyfihamlaður getur staðfest, og það þyrfti kannski að koma inn í lögin í meðförum nefndarinnar, að kjörseðillinn sé rétt útfylltur, eins og hann vildi. En sá sem er blindur getur það ekki. Þó að hann sé með besta vin sinn getur vinur hans sett x við hvaða bókstaf sem er. Sá blindi sér það aldrei.

Ég mundi vilja slá einn varnagla í viðbót ef mönnum sýnist svo, að hægt sé að kalla til einhvern úr kjörstjórninni til að líta yfir kjörseðilinn og lesa hann fyrir þann sem er blindur eftir að vinur hans hefur merkt við.