141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[14:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, sem einnig var lagt fram á 139. og 140. löggjafarþingi. Málið var þá komið úr nefnd eftir ítarlega athugun hv. samgöngunefndar en þar sem komið var að þinglokum reyndist ekki unnt að ljúka málinu.

Þetta er samtvinnað því þingmáli sem ég mæli fyrir hér á eftir um Vegagerðina sem er framkvæmdastofnun á samgöngusviði. Fram komu nokkrar athugasemdir og gagnrýni á þessi frumvörp og þá ekki síst hinn fjárhagslega þátt sem var að finna í greinargerð með frumvarpinu. Þetta hefur allt verið fært til betri vegar en var gagnrýnt af ýmsum í þingsal og ég tók undir þá gagnrýni. Þetta var meðal annars gagnrýnt af hálfu hv. formanns nefndarinnar og fleiri hv. þingmönnum sem sæti eiga í samgöngunefnd.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót samgöngustofnun undir heitinu Farsýslan, sem sinni stjórnsýslu og eftirliti á sviði samgöngumála. Stofnun hennar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnunar sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar stjórnsýslustofnun og hins vegar framkvæmdastofnun, undir heitinu Vegagerðin, sem sinni framkvæmdum á sviði samgöngumála.

Stofnanirnar verða reistar á grunni núverandi samgöngustofnunar, þ.e. Siglingastofnunar, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar. Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp um Vegagerðina eins og ég gat um hér áður.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta í ljósi þess að málið hefur áður fengið ítarlega umfjöllun hér í þinginu. Ég legg áherslu á að málið fari sem fyrst til umfjöllunar í samgöngunefnd þingsins og fái helst skjóta afgreiðslu þar. Ég legg til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.