141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[14:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hæstv. innanríkisráðherra um það að það er gott að þetta mál fari sem fyrst aftur til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem það var til umfjöllunar síðasta vor.

Þar voru tveir þættir helst að þvælast fyrir mönnum svo að það sé sagt. Annars vegar var það spurningin um það hvort sú fjárhagslega hagræðing næðist fram með þessu sem menn hljóta að stefna að í þessu sambandi. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hefur einhverjar nýjar upplýsingar eða nýjar athugasemdir um þann þátt vegna þess að okkur nefndarmönnum þótti mörgum að ekki væri nægilega búið að greina hver hinn fjárhagslegi ávinningur sem af þessu skapaðist gæti orðið.

Þannig að ég vildi óska þess ef hæstv. ráðherra hefur látið skoða þann þátt málsins betur að hann upplýsti þingið um það nú við 1. umr.

Hitt atriðið sem efasemdir voru um innan nefndarinnar, raunar skiptar skoðanir, svo að því sé haldið til haga, var um hinn faglega ávinning sem hlytist af því að sameina þarna stofnanir því að mörgum, og þar á meðal mér, þótti ekki augljóst að öll sérhæfing á sviði löggjafar á sviði flugmála, svo að dæmi sé tekið, nýttist lögfræðingi sem þyrfti að sinna verkefnum sem sneru til dæmis að útboðum hjá Vegagerð eða einhverju þess háttar.

Sama má raunar segja um ýmsa aðra þætti í þessu því að í frumvarpinu er í grundvallaratriðum gengið út frá því að mikill ávinningur verði af því að hægt sé að samnýta sérfræðinga sem í dag starfa í mismunandi stofnunum til ólíkra verka inni í einni stofnun. (Forseti hringir.) En þarna eru skoðanir einfaldlega skiptar og menn hafa bent á sérstöðu bæði flugmálanna (Forseti hringir.) og reyndar siglingamálanna líka í samanburði við Vegagerðina.