141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[15:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hugmyndin að baki því vinnuferli sem nú er gert ráð fyrir að fari í gang, ef þetta verður samþykkt í þinginu — og ég hef rætt við þá forstöðumenn sem í hlut eiga sem mundu stýra hinum nýju stofnunum — er að stofnanirnar legðust yfir vinnuferlið í samráði við sitt fólk. Við höfum orðið sammála um að fari svo að þingið samþykki lögin verði ekki tekin nein heljarstökk, menn geri hlutina hægt og rólega og valdi sem minnstu umróti. Það er hugmyndin og það er hugsunin. Síðan komi þeir að þessu verki sem best þekkja til að útfæra þessar hugmyndir og stofnanabreytingar. Það er hugmyndin og það er hugsunin, að það sé ekki gert af hálfu einhvers yfirstjórnarvalds.

En við getum náttúrlega ekki sett það ferli í gang fyrr en vilji löggjafans kemur í ljós. Ef Alþingi fellir þessar tillögur nær málið ekki lengra, það er ósköp einfalt. Ef það er samþykkt hér á þingi getur ferlið farið í gang. Það er hugmyndin.