141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[15:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vangaveltur hv. 1. þm. Suðurk. eru mjög í anda þess sem ég velti fyrir mér í ræðu minni. Ég hef, eins og áður hefur komið fram, haft mínar efasemdir um hugmyndir um sameiningu bæði lögregluembætta og sýslumannsembætta.

Ef ég svara því almennt finnst mér hins vegar að þetta frumvarp sé miklu nær því sem talist getur viðunandi en til dæmis þau stórkarlalegu áform sem uppi voru um að hafa eina lögreglustjórn yfir öllu landinu.

Vandinn sem við glímum við þarna er að við þekkjum dæmi þar sem lögreglumenn eru einfaldlega ekki til staðar. Það er auðvitað ekki hægt að dreifa lögreglumönnum um allar þorpagrundir landsins en við verðum að skipuleggja þetta með þeim hætti að svæði sem eru fjær höfuðstjórn löggæslunnar í viðkomandi umdæmi njóti löggæslu. Ég nefndi dæmi um Dalina. Hv. þingmaður nefndi, eins og ég áður, dæmið úr Mýrdalnum og er þar um heilmikið mál að ræða.

Ég ætla ekki að áfellast þá sem stjórna þessum löggæsluumdæmum. Þeir eru í þeim vanda að að þeim er kreppt fjárhagslega og þeir eru að reyna að bregðast við. Ég veit að þeir eru allir af vilja gerðir til að sinna þessum málum eins vel og mögulegt er í þágu íbúanna.

Það þarf auðvitað að liggja fyrir með hvaða hætti þessari þjónustu verður sinnt, ég tek undir það með hv. þingmanni. Það vekur hins vegar hjá mér tortryggni að sporin hræða frá gamalli tíð. Við höfum oft fengið yfirlýsingar um að ekkert muni breytast í þjónustunni nema hún muni mögulega batna. Síðan hefur annað komið á daginn.

Ég tel því að nefndin verði að fara alveg sérstaklega ofan í þessa hluti og sýna fram á það með miklum rökum að löggæslan versni ekki þar sem hún er í dag heldur styrkist í ljósi þess að (Forseti hringir.) sameiningin á að leiða til faglegrar styrkingar embættanna.