141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[16:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur við að ég gæti sagt eftir þessa ræðu: Amen, og látið það duga, vegna þess að ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni. Um þetta snýst auðvitað málið. Ég hef litið þannig á að hugmyndin á bak við frumvarpið væri ekki sú að sameina stofnanir sameiningarinnar vegna. Ég tek eftir því að í frumvarpinu er ekki lögð áhersla á að sameiningin eigi að skila óskaplega mörgum milljónum í sparnað í ríkisrekstri. Við þekkjum það frá gamalli tíð að yfirleitt er sparnaðurinn fugl í skógi þegar menn fara af stað í slíka leiðangra. Það væri fróðlegt að kíkja á skýrslur sem hafa verið gerðar um sameiningu stofnana, það hefur gengið upp og ofan að ná þeim markmiðum öllum. Einskiptiskostnaðurinn er mikill og síðan er hinn varanlegi sparnaður yfirleitt dálítið óljós enda hafa menn frekar gengið á lagið og reynt að nýta sparnaðinn til eflingar sinna embætta.

Það sem hér er hins vegar að baki er sú hugsun að hægt sé að gera betur, gera löggæsluna betri með þessum sameiningum. Ég hef áður sagt að ég hef verið fullur tortryggni gagnvart slíkum hugmyndum. Ég held hins vegar að málið sé orðið betur þróað en áður. Það sem er stóra málið og hv. þingmaður er í raun að segja er að áður en málið verður að lögum þurfum við að negla betur niður en við sjáum gert í frumvarpinu hvernig þessum málum verður sinnt úti í landsins dreifðu byggðum. Ég held að einfaldar yfirlýsingar í nefndaráliti dugi ekki, það þarf örugglega að styrkja lagagrunninn sjálfan þannig að löggjafinn bindi hendur framkvæmdarvaldsins í þeim efnum og tryggt sé að grunnþjónusta löggæslunnar sé til staðar úti um landið. Það er það sem við þurfum.

Menn vísa kannski í framtíðinni í nefndarálitin og segja: Það var nú alltaf ætlun löggjafans að þarna yrði góð löggæsla og síðan hefur það ekki ræst. Það eru bara billeg orð sem vigta ekkert inn í framtíðina. Stóra málið er að við göngum þannig frá þessari lagasetningu (Forseti hringir.) að þeir sem við eiga að búa geti verið alveg vissir um að löggæslan muni örugglega (Forseti hringir.) ekki versna, helst batna.