141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

áfengislög.

134. mál
[16:35]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það að við fjölluðum mikið um frumvarpið í allsherjar- og menntamálanefnd í fyrra og fórum nokkuð ítarlega í gegnum það. Auðvitað voru skiptar skoðanir um það eins og er til þessara mála þó að það væri nokkuð breiður meiri hluti í nefndinni fyrir að afgreiða það út á sínum tíma og mikill vilji innan hennar og meðal tiltekins hóps þingmanna að ljúka málinu og koma því héðan út. Mörg stórmál voru hér uppi í þinginu og ekki tókst að klára það, það er því gott að málið er komið fram núna strax í lok september. Það er því nægur tími og öll sú vinna sem nefndin fór í gegnum fyrr á þessu ári nýtist að sjálfsögðu þannig að það ætti að vera hægt að afgreiða málið nokkuð fljótlega aftur úr nefndinni.

Afstaða mín var meðal annars sú að mér finnst sniðgangan algjörlega óásættanleg í kringum bann við auglýsingum á áfengum drykkjum. Annaðhvort er þetta leyft eða bannað. Sú staða sem hefur verið uppi er algjörlega óásættanleg þar sem farið er mjög létt í kringum þetta og án þess að í rauninni hafi verið reynt að fela það að um sniðgöngu væri að ræða með því að setja örsmáu letri í horn á skjánum 2,25% eða hvað það er. Mín afstaða er sú að við ættum að taka umræðu um hvort ætti að leyfa þetta með skilyrðum eða að banna þetta með afdráttarlausari hætti eins og hérna er lagt til.

Ég held að það sé gott að setja eftirlitið til Neytendastofu. Ég held að slíkt eftirlit verði skilvirkara og frumkvæðisdrifnara með því hvort verið sé að brjóta þetta bann. Þetta verði til að efla þá stofnun mjög verulega á mörgum sviðum og færa henni fleiri verkefni og umsvif til að sinna.

Það eina sem var bent á sem við stöldruðum við, man ég fyrr á þessu ári, var að bannið mundi bitna meira á innlendum framleiðendum þar sem þeir erlendu gætu auglýst á fótboltaleikjunum og á erlendu hljóðvarps- og sjónvarpsrásunum sem við náum auðvitað ekki til.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hefði velt þeim fleti upp eða öðrum sem teldust kannski til baga. (Forseti hringir.) En ég held að langflestir mæli með þessu máli og að þetta verði að lögum.