141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

áfengislög.

134. mál
[16:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í sjálfu sér taka nákvæmlega undir þetta með ráðherra. Ég held að umræða næstu missira muni snúast miklu meira um það með hvaða skynsamlegum leiðum hægt er að draga úr bæði aðgengi og öðru því sem stuðlar að aukinni neyslu, þó að hægt sé að staðhæfa að það sé nokkuð útbreidd skoðun í hinum vestrænu samfélögum að áfengi sé leyft. En umgangast þarf það af skynsemi en ekki léttúð eins og hefur verið gert á síðustu áratugum, og það er að þróast aftur núna í hina áttina, að kenna ungu fólki og öðrum að umgangast það af varfærni og ganga ekki of langt í auknu aðgengi og því að auglýsa það úti um allt. Verið er að rjúfa magasínþætti, á fréttatímum og þegar börn og unglingar eru að horfa á þætti. Það er auglýst alveg miskunnarlaust og purkunarlaust á viðkvæmasta tíma.

Ég held að það sé alveg rétt að nánast er búið að útrýma reykingum úr opinberu lífi víða um veröld. Verður fróðlegt að fylgjast með því.

Ég vil segja að lokum og taka undir það með ráðherranum burt séð frá því hver eru viðhorf einstakra manna til málsins, af því þetta er mál sem fer eðlilega þvert á flokka í sjálfu sér eða getur auðveldlega gert það, tengist því ekki, tengist allt öðrum skoðunum og annarri lífsafstöðu en einhverjum hefðbundnum misúreltum hægri/vinstri ás, að búið er að afgreiða þetta mál úr nefndinni áður. Það er búið að fjalla mjög ítarlega um þetta. Málið hefur breyst og þroskast og batnað að sjálfsögðu.

Það er mjög mikilvægt að láta reyna á það í atkvæðagreiðslu hér því að ekkert er að óttast. Ef málið hefur ekki meiri hluta, þá bara fellur það, og þá er hægt að fara að leita annarra leiða. Það skiptir líka miklu máli. Það er vont að hafa það óklárað. Þess vegna vildi ég nota þetta tækifæri til að skora á þingið þegar þetta kemur út úr nefndinni að ganga til atkvæða um málið.