141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2014.

171. mál
[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um 12 ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022 og tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014. Þessi þingmál voru lögð fram á 139. og 140. löggjafarþingi.

Sú áætlun sem hér er lögð fram er önnur fjarskiptaáætlun Íslands. Sú fyrri, sem var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, gilti fyrir árin 2005–2010. Fjarskiptasjóður var settur á laggirnar til að fylgja eftir framkvæmd þeirrar áætlunar og var stofnaður með lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005. Hlutverk hans er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum. Framkvæmdir vegna verkefna fjarskiptasjóðs eru boðnar út og er það hlutverk stjórnar að ákveða tilhögun og stærð útboða.

Með lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., nr. 133/2005, var samþykkt að leggja sjóðnum til fjármagn að fjárhæð 2.500 millj. kr. Þeir fjármunir sem samþykkt hefur verið að leggja í fjarskiptasjóð eiga fyrst og fremst að standa straum af þremur markmiðum fjarskiptaáætlunar:

1. Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðanettengingum.

2. Að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1, öðrum helstu stofnvegum og á helstu ferðamannastöðum.

3. Að dreifing sjónvarpsdagskrár Ríkisútvarpsins, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2, til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlli svæða verði stafræn um gervihnött.

Til að hrinda í framkvæmd markmiðum og áætlunum fjarskiptaáætlunar 2005–2010 hefur fjarskiptasjóður staðið í umfangsmiklum framkvæmdum í samvinnu við fjarskiptafyrirtækin og hafa fjármunir fyrst og fremst nýst við að GSM-væða hringveginn sem og að bjóða upp á háhraðanettengingar á svæðum með skilgreindan markaðsbrest. Þessum tveimur verkefnum er nú nánast lokið og er ljóst að í kjölfar bankahruns og efnahagskreppu verður bein aðkoma stjórnvalda og fjárhagsleg útgjöld ríkisins ekkert í líkingu við það sem var þegar fjármunum af söluandvirði Símans var varið til uppbyggingar fjarskipta í landinu.

Ný sóknarfæri blasa við á nýjum tímum sem kalla á samstarf og samvinnu við hagsmunaaðila og fjarskiptafyrirtæki um áframhaldandi þróun og uppbyggingu fjarskipta á Íslandi. Óhætt er að fullyrða að staða okkar Íslendinga í fjarskiptamálum sé góð á alþjóðlegan mælikvarða. Við búum við gott aðgengi, hagkvæmt verð og rekstraröryggi er gott. Sú staða breytir því ekki að víða má gera betur og við verðum sífellt að vera reiðubúin að leita bestu hugsanlegra lausna.

Fjarskiptaáætlunin sem ég mæli nú fyrir var unnin í nánu samráði við hagsmunaaðila og hefur undirbúningur staðið yfir í talsverðan tíma. Vinnuhópar ráðuneyta hafa komið að verkefninu og hafa fjarskiptafyrirtæki og markaðsaðilar einnig komið að athugasemdum sínum. Innanríkisráðuneytið stóð fyrir opnum fundi með Skýrslutæknifélagi Íslands auk þess að kynna drög að áætluninni á vef sínum. Tekið var tillit til athugasemda eins og rétt þótti.

Hæstv. forseti. Ég vísa til þess að ég hef áður talað fyrir þessum áætlunum og flutt um þær allítarlegar ræður. Ég vísa til greinargerða sem fylgja þessu þingmáli. Ég mun síðan taka þátt í umræðu eftir því sem efni gefst til.

Ég legg til að tillögunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.