141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2014.

171. mál
[16:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014. Síðan mun fara fram umræða á eftir um lengri tíma áætlun sem er lögbundið að sé lögð fram, eins og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir. Ég ætla því ekki að fara í efnislega almenna umræðu um fjarskiptamál núna, ég ætla aðeins að bíða með það þangað til við ræðum um 12 ára fjárskiptaáætlunina og víkja þá eingöngu að þeirri áætlun sem hér er um að ræða.

Við getum sagt varðandi þessa áætlun að hún sé nær því að vera einhvers konar framkvæmdaáætlun. Við sjáum það í köflunum, meðal annars í kaflanum Markmið um aðgengileg og greið fjarskipti og verkefnum þar undir, að þar eru tíunduð með almennum orðum ýmis markmið sem ætlunin er að setja varðandi uppbyggingu á fjarskiptum í landinu. Er síðan gert aðeins betur og eru enn fremur tíunduð nokkur verkefni sem vinna á á tilteknum tíma.

Ég vil vekja athygli á því að við ræðum hér þingsályktunartillögu um fjögurra ára fjarskiptaáætlun sem gilda á fyrir árin 2011–2014. Að sumu leyti er hér um sagnfræði að ræða. Fer nú vel á því að hæstv. innanríkisráðherra hefur sagnfræðilega menntun frá virtum skoskum háskóla og getur þess vegna lagt fram svona sagnfræðilegt plagg með sóma og sann þó að um fjarskiptamál sé að ræða. Ég ætla að gera fáein atriði að umtalsefni sem kunna eftir atvikum að kalla á svör frá hæstv. ráðherra og væri ágætt að fá þau ef þau eru til staðar, ella verður það að bíða betri tíma í meðferð nefndarinnar.

Úr því að við ræðum hér öðrum þræði sagnfræðilegt plagg vil ég í fyrsta lagi vekja athygli á því að í g-lið verkefnalistans sem nefndur er í áætluninni er talað um að yfirfærslu á hliðrænum útsendingum sjónvarps yfir á stafrænt form verði lokið fyrir árslok 2014. Hér er um að ræða heilmikla bót, verið er að bæta sjónvarpsskilyrðin og gera mönnum kleift að horfa á sjónvarpið með meiri gæðum en í dag. Það er ákaflega jákvætt og gott markmið. Þess vegna væri fróðlegt að heyra hvernig þau mál standa. Við erum að verða hálfnuð miðað við tímaáætlunina. Hvar erum við stödd í því máli? Er mikið eftir og þá á hvaða svæðum?

Í annan stað finnst mér það mjög áhugavert sem nefnt er í h-liðnum. Þar segir að samþætta skuli þjóðskrá, skipaskrá, ökutækjaskrá og fleiri skrár í samvinnu við nýja upplýsingatæknimiðstöð. Það er út af fyrir sig áhugavert en snertir aðeins það sem við ræddum áðan undir öðrum formerkjum sem laut að sameiningu lögregluumdæmanna. Hér er auðvitað hið dæmigerða verkefni þar sem landfræðileg lega skiptir engu máli. Hér er um að ræða utanumhald um skrár, þjóðskrá, skipaskrá, ökutækjaskrá og fleiri skrár, sem hægasti vandinn er að vinna við hvar sem er á landinu. Við vitum það að þessi ríkisstjórn hefur, eins og fleiri ríkisstjórnir, haft það að markmiði að reyna að færa verkefni, ekki síst af þessum toga, út um byggðir landsins til að efla þær og atvinnulífið þar.

Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi hvernig ætlunin sé að starfrækja þessa nýju upplýsingatæknimiðstöð. Verður um að ræða sjálfstæða stofnun? Verður um að ræða starfsemi sem heyra mun undir einhverja tiltekna stofnun sem setja á á laggirnar eða er þegar starfandi? Í því sambandi hlýt ég líka að spyrja sérstaklega um hvort hæstv. ráðherra sé mér ekki sammála um að verkefni af þessu tagi eigi einmitt heima á landsbyggðinni. Við höfum að vísu dálítið vonda reynslu af slíku, þegar fjarskiptabyltingin varð á Íslandi, eins og í öðrum löndum, bundum við mörg miklar vonir við hana og töldum að þarna væru að opnast nýir heimar fyrir okkur og möguleikar á því að búa til störf á landsbyggðinni sem sinna mætti þaðan og þjóna öllu landinu.

Þannig hefur þetta verið víðast hvar úti í heimi. Við vitum að stór og framsækin fyrirtæki gera einmitt þetta, þau færa verkefni, sem unnin hafa verið miðlægt í fyrirtækjum þeirra og stofnunum, út á land þar sem ódýrara er að vinna þau vegna þess að húsnæðið er ódýrara, vinnuaflið stöðugra o.s.frv. Hér á landi erum við með svo einkennilega kapítalista að þeir, nánast einir í heiminum, geta ekki komið auga á að það kunni að vera fjárhagslega ábatasamt að færa slíka starfsemi út á land. Þar hefur þróunin eiginlega verið alveg öfug. Þar hafa stóru fyrirtækin fært verkefni sín til höfuðborgarsvæðisins. Það sama á við um ríkisstofnanir með þeim orðum að það sé alveg sama hvar þessi verkefni séu unnin vegna þess að fjarskipta- og tölvutæknin hafi gert það að verkum að það megi vinna þau á einum stað, og síðan kemur þankastrik — í Reykjavík. Ég vildi aðeins vekja athygli á því.

Að lokum vildi ég vekja máls á atriði í l-lið á verkefnalistanum. Þar segir að tryggt verði aðgengi að einni hljóðvarpsrás á helstu stofnvegum. Ég ferðast mikið um landið, sérstaklega um norðvesturhluta þess, og það verður að segjast eins og er að útvarpssendingar eru þar ákaflega stopular. Ég á að vísu dálítið gamlan bíl sem er meðal annars búinn langbylgjuútvarpi þannig að það kemur ekki að sök þar. En í nýjum bílum eru leitararnir svo næmir að á löngum köflum er ekki nokkur leið að hlusta á útvarp, sérstaklega ekki á Ríkisútvarpið, þá merku stofnun okkar sem við réttlætum tilveruna á með því að hún þjóni landinu öllu, hún sé öryggistækið sem við fáum upplýsingarnar í gegnum og hafi þess vegna aðra nálgun en útvarpsstöðvar sem þjóni sínum hlustendum eingöngu á fjárhagslegum forsendum. Þess vegna finnst mér bæði átakanlegt og mótsagnakennt þegar ég keyri um þjóðvegi landsins á löngum köflum að Ríkisútvarpið náist þar hreint ekki nema í gegnum langbylgju, sem er þó guðsþakkarvert fyrir þá sem hafa þann búnað í bílum sínum. Þeim fer fækkandi, eftir því sem mér skilst, því að í nýrri bílum er ekki þann búnað að finna. Það undrar mig mjög hversu slök frammistaða Ríkisútvarpsins er í þessum efnum og er ástæða til að brýna þá góðu stofnun til að taka sig nú á í þessum efnum.

Þessu tengt eru jarðgangaframkvæmdir okkar undanfarin ár. Bolungarvíkurgöngin voru tekin í notkun 2010, eins Héðinsfjarðargöngin, og eru það mjög merkilegar og góðar framkvæmdir fyrir þau héruð sem við eiga að búa. Þar var hins vegar tekin sú ákvörðun að spara 10 millj. kr., eða þar um bil, í margra milljarða verkefni með því að sleppa því að hafa þar senda til þess að menn gætu hlustað á útvarp. Þegar menn keyra um þessa dýrustu stofnvegi landsins, í gegnum jarðgöng, hverfur skyndilega allt útvarpssamband. Það er auðvitað mjög pirrandi fyrir þá sem vilja hlusta á útvarpssendingar, að fylgjast með fréttum eða einhverju öðru áhugaverðu efni. Til dæmis hefði sú frétt væntanlega farið fram hjá öllum sem ætluðu að hlusta á fréttir í dag, að hæstv. forsætisráðherra ætlaði ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu, eins og mér er sagt að komið hafi fram í fjölmiðlum í dag.

Menn hafa bent á að ein réttlætingin fyrir Ríkisútvarpinu sé öryggisþátturinn. Auðvitað er það öryggismál fyrir þá sem ferðast um vegi landsins, hvort sem það er um jarðgöng eða annað, að eiga aðgang að útvarpi. Þar hefur Ríkisútvarpið heilmiklu hlutverki að gegna vegna sérstöðu sinnar, vegna fjármögnunarinnar sem er mælt fyrir um í lögum og allir þegnar landsins verða að taka þátt í.

Þetta voru vangaveltur sem komu upp í huga minn þegar ég fór í gegnum þessa fjögurra ára áætlun, að sumu leyti sögulegu áætlun eins og ég vakti athygli á. Síðan er auðvitað ýmislegt annað sem maður gæti velt fyrir sér. Það segir til dæmis í kaflanum Markmið um hagkvæm og skilvirk fjarskipti , með leyfi virðulegs forseta:

„Lagaumhverfi verði endurskoðað með tilliti til aukins hvata til fjárfestinga í fjarskiptainnviðum auk þess sem stuðlað verði að samnýtingu og samstarfi.“

Það hljómar mjög vel en mér er alls ekki ljóst hvað það þýðir. Með hvaða hætti ætla menn að búa til lagaumhverfi sem eykur hvata til fjárfestinga í fjarskiptainnviðum? Er verið að búa til einhvern skattalegan hvata? Ætlum við að fara sömu leið og gert er varðandi kvikmyndaiðnaðinn, að menn fái kostnað greiddan til baka? Ég átta mig ekki á því hvað hér er um að ræða. Það er ábyggilega einhver hugsun á bak við þetta og væri fróðlegt að heyra hvað átt er við. Ekki er verið að tala um bein fjárútlát ríkisins í þessu sambandi, þvert á móti er sagt að búnir verði til einhvers konar hvatar sem geri það að verkum að fjarskiptafyrirtækin sjái sér hag í því að fjárfesta í innviðum í fjarskiptamálum úti um byggðir landsins. Ég yrði afar þakklátur ef hæstv. innanríkisráðherra gæti upplýst mig eitthvað frekar um þessi mál.