141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2014.

171. mál
[17:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu málefnalegu ræðu. Mér varð á í messunni áðan. Ég var byrjaður að tala fyrir báðum áætlununum, til skamms tíma og lengri tíma, sem engin heimild var fyrir í þinginu. Ég hafði gengið út frá því en svo var ekki þannig að ég mun aftur kveðja mér hljóðs um hina áætlunina.

Aðeins örfá orð um það sem hv. þingmaður nefndi. Hann reifaði ýmsa þætti. Eitt af því sem hann spurði út í var hvað stæði fyrir dyrum þegar vísað var til h-liðar í 1. þætti, að þjóðskrá, skipaskrá, ökutækjaskrá og fleiri skrár yrðu samþættar, sameinaðar í samvinnu við nýja upplýsingatæknimiðstöð. Þetta er nokkuð sem er allt í mótun og í mikilli umræðu. Nánast öll þau svið sem tengjast fjarskiptum svo og rafrænni þjónustu eru í gerjun eins og við þekkjum og þar á meðal þeir þættir hvernig við getum sameinað þær skrár sem við höfum undir höndum.

Þessu tengjast tveir veigamiklir þættir. Annars vegar eru auðkennismálin sem hafa verið mjög til umræðu og innanríkisráðuneytið efndi til mjög fróðlegrar málstofu um þau mál með sérfræðingum frá ýmsum stofnunum Stjórnarráðsins og hagsmunaaðilum á markaði, bönkunum svo að dæmi sé tekið. Hinn þátturinn er farvegirnir sem notaðir eru til að miðla upplýsingum.

Það liggur ekki alveg ljóst fyrir hvernig þessi mál þróast þó að ég hafi mínar hugmyndir um það. Ég vil svara þessari spurningu þannig að þessi mál eru í þróun og gerjun og mjög mikilvægt að við tökum um þau umræðu.

Varðandi hvata til aðila að taka þátt í smíði innviðanna þá deildum við um það fyrir fáeinum árum hvort þessir innviðir ættu að vera á vegum samfélagsins eða ekki. Niðurstaðan varð sú að grunnnet Símans var ekki aðskilið Símanum á þeim tíma heldur selt jafnhliða enda þótt Síminn hefði tryggt okkur mjög góða þjónustu, ódýrustu símaþjónustu í heiminum held ég að sé óhætt að segja í innanlandssímtölum, en niðurstaðan varð þessi.

Við höfum ekki fjármuni nú til að ná þessum netum, þessum innviðum, aftur til samfélagsins, alla vega ekki á þessari stundu, því fer meira að segja fjarri. Hvað gerum við þá? Þá finnum við nýjar leiðir til að sinna þeim verkefnum sem markaðurinn ræður ekki við. Þá er hugsunin sú að skattleggja þá aðila sem fá takmarkaðar brautir í háloftunum eða hvar sem það er og geta komið grunnþjónustu sinni að. Við tökum þessa skatta og beinum þeim inn í fjarskiptasjóð sem er síðan notaður til þess að stoppa upp í þau göt sem eru í landinu, og hv. þingmaður vísaði til, þar sem brotalamir væru í kerfinu. Þetta er hugsunin.

Síðan er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að huga að því að örva fyrirtæki til að standa vel að verki. Eitt af því sem við gerðum var að breyta lögum fyrir fáeinum mánuðum sem gerðu það kostnaðarminna fyrir fjarskiptaaðila að leggja strengi í jörðu á landsbyggðinni, svo að dæmi sé tekið.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og biðst afsökunar á því að hafa slengt saman framsögu fyrir tveimur þingmálum í misskilningi mínum. Ég kem væntanlega aftur að vörmu spori til að tala fyrir hinu síðara og verður það á sama veg og fyrri ræða mín.