141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

172. mál
[17:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu sem skiptir auðvitað miklu máli. Eins og við vitum eru fjarskiptin æ þýðingarmeiri fyrir okkur í nútímalegu umhverfi og í raun og veru stöndum við í þeim sporum að án öflugs fjarskiptakerfis stæðum við mjög höllum fæti. Það blasir við okkur sem þjóð gagnvart öðrum þjóðum að ef fjarskiptin á einhvern hátt truflast þá erum við í miklum vanda. Það á ekkert síður við hér innan lands hjá þeim sem búa við fjarskipti. Við erum orðin svo háð þeim að um leið og einhverjir minnstu hnökrar koma upp eru menn í miklum vanda.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að um það var tekist á á sínum tíma með hvaða hætti ætti að standa að uppbyggingu grunnkerfisins í landinu. Við hæstv. ráðherra vorum mjög ósammála í þeim efnum. Ég var að ég hygg á þessum tíma, a.m.k. á einhverjum tíma í þessari þróun, formaður samgöngunefndar og við áttum margoft orðaskipti um þessi mál.

Niðurstaðan varð sú að grunnkerfið var selt með Símanum, eins og við vitum, og síðan hafa önnur fjarskiptafyrirtæki komið á markað og byggt upp sín fjarskiptakerfi eða gert svokallaða reikisamninga sín á milli sem hafa líka gert það að verkum að menn hafa aðgang að fjarskiptakerfunum þótt þau séu í eigu einhverra tiltekinna fyrirtækja burt séð frá því hvar þeir starfa.

Það hefur líka orðið mjög merkileg þróun á þessum fjarskiptamarkaði. Síminn, Landssíminn eins og hann hét áður, var algerlega ríkjandi fyrirtæki í upphafi þessa tímabils. Nú er staðan orðin mjög breytt. Í fastlínukerfinu er Síminn auðvitað áfram hinn ríkjandi aðili en til dæmis í GSM-sambandi eru að minnsta kosti tvö önnur fyrirtæki, Vodafone og Nova, orðin mjög umsvifamikil á þessum markaði líka. Ég veit ekki hvort enn sé hægt að tala um að Síminn sé markaðsráðandi í þeim skilningi. Hann þarf að heyja mjög harða samkeppni við keppinauta sína um þessi fjarskipti.

Stöðugt er að verða til ný tækni sem gerir það að verkum að hefðbundin símtöl, t.d. á milli landa, eru mikið að breytast. Við sjáum að fyrirbrigðið Skype hefur breytt mjög mikið fjarskiptum manna milli landa og hefur væntanlega haft þau áhrif að tekjur símafyrirtækja af slíkum símtölum hafa lækkað. Ég hef líka upplifað það á síðustu vikum að hægt er að hringja milli landa nánast kostnaðarlaust í gegnum tölvur og með prýðilegum gæðum sem hlýtur líka að hafa áhrif á tekjumöguleika símafyrirtækjanna. Við sjáum að þessi þróun er gríðarlega ör.

Ég tel þess vegna ekkert óeðlilegt að þetta fyrirkomulag sé í meginatriðum svona: Símafyrirtækin sinna þeim hluta fjarskiptanna sem er markaðsdrifinn og það er langstærsti hluti þessara fjarskiptakerfa en síðan er hluti fjarskiptanna þannig að það borgar sig ekki fyrir símafyrirtækin að leggja í fjárfestingar og þá verður til það sem menn kalla markaðsbrestur og þá á fjarskiptasjóðurinn að koma til.

Ég held að við þurfum að íhuga það núna með hvaða hætti við getum eflt þennan hluta málsins. Það er alveg ljóst eins og mál hafa þróast og þrátt fyrir að símafyrirtækin hafi að mörgu leyti staðið sig vel, eða fjarskiptafyrirtækin, þá vantar engu að síður heilmikið upp á.

Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra í sumar, eða undir þinglok í vor, um áformin um bætt GSM-símasamband vestur að vegi 60 og veginum um Ísafjarðardjúp. Svar hæstv. ráðherra var mjög skýrt. Það var annars vegar að engin áform væru uppi hjá fjarskiptafyrirtækjunum um umbætur þó að þar séu miklar gloppur — það er ekki rétt sem kemur fram í svarinu að þar séu tiltölulega litlar gloppur, það eru ansi miklar gloppur á þessu svæði sem er bæði mjög bagalegt og lýtur líka að öryggi vegfarenda. Síðan kom fram að ráðuneytið hefði ekki uppi nein sérstök áform um uppbyggingu á þessu svæði. Ég segi: Þarna er hlutur sem við þurfum fyrir alla muni að taka á því að ástandið getur ekki verið svona.

Annað sem er nátengt þessu er að við vitum að við höfðum ákveðið markmið um uppbyggingu á fjarskiptum okkar, tölvusamböndum og slíku. Við vorum með eitthvað sem hét ISDN-tenging og menn töldu að væri nánast eins og kraftaverk. Það var varla búið að ná þeim árangri sem að var stefnt í þeim efnum þegar sú tækni var orðin gamaldags og ADSL kom og síðan koma stöðugt nýjar aðferðir. Við erum alltaf að elta skottið á okkur í þessum efnum og þurfum að mínu mati að spýta vel í.

Maður verður var við það að fyrirtæki á landsbyggðinni, eins og í ferðaþjónustu, standa höllum fæti þegar kemur að þessu. Einstaklingar og fyrirtæki víða á landsbyggðinni geta ekki einu sinni átt eðlileg bankaviðskipti vegna þess að flutningsgetan er allt of lítil. Nýju tölvukerfin eru þannig að mikið er kvartað undan þeirri tölvutækni sem menn búa við víða um land. Við vorum um daginn austur í Skaftárhreppi þar sem mikið var kvartað undan þessu. Ferðaþjónustufyrirtækin kvörtuðu mikið undan þessu og aðrir. Það sama heyrir maður hvar sem maður kemur um landið. Ég hvet til þess að að þessu verði hugað.

Svo að ég víki aftur að þessu með símasambandið á Vestfjarðavegi og veginum um Ísafjarðardjúp og víðar um landið þá tel ég ekki viðunandi að menn geti varla notað símann á þessum leiðum vegna þess að þeir eru varla búnir að hefja sitt símtal þegar þeir lenda í dauðum kafla og allt slitnar. Þetta er tómt vesen.

Sama er varðandi fjarskiptin á hafsvæðinu í kringum landið. Það eru enn gloppur í þeim efnum. NMT-kerfið er horfið og menn reyna að reiða sig á GSM-sambandið en það er alls ekki fullnægjandi. Við þurfum þess vegna að skoða með hvaða hætti verði staðið að þessu. Það er ekki hægt að vísa bara á eitthvert annað samband sem menn geta ekki nýtt sér.

Tíminn líður svo hratt en ég vildi samt sem áður koma að einu atriði í viðbót sem ekki lýtur að þessum beinu fjarskiptum, þróun póstmála. Við sjáum að þar gerast hlutirnir mjög hratt. Hefðbundnum bréfapóstsendingum er, ég segi nú ekki að fjara út en þeim fer fækkandi sem gerir það að verkum að það sverfur að rekstri Íslandspósts sem hefur ákveðnar alþjónustukvaðir til að sinna póstþjónustu um allt land. Það er brýnt fyrir okkur að horfast í augu við þennan vanda. Tölvupóstar eru að leysa af hendi gömlu góðu póstþjónustuna.

Fyrirtækið Íslandspóstur hefur haft einkarétt á póstþjónustu bréfa allt að 50 grömmum að þyngd. Samkvæmt því sem hér kemur fram og við höfum áður rætt og ræddum þegar þessi mál voru á sínum tíma til umræðu þá var einkarétturinn að þessu leytinu almennt talað í löndum Evrópusambandsins og EES-löndunum úr sögunni 31. desember 2010. 11 ríki fengu hins vegar leyfi til að fresta afnámi einkaréttarins, þar á meðal vorum við Íslendingar. Ef ég skil þetta rétt þá mun þessi einkaréttur falla úr gildi í árslok. Ég spyr hæstv. ráðherra með hvaða hætti við tökum á því. Íslensk stjórnvöld tilkynntu að þau mundu nýta sér þennan frest. Nú er þessi frestur að renna út. Tíminn líður og þá kemur fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu að við afnám einkaréttarins til póstdreifingar færist rekstur póstþjónustu til almennra fyrirtækja frá stofnun eða fyrirtækja í eigu viðkomandi ríkis líkt og tilfellið er á Íslandi. Nú hljóta menn að vera búnir að velta fyrir sér nákvæmlega hvernig verður brugðist við þessu. Ef við ætlum að fara í þetta þá verðum við líka að vera klár á því með hvaða hætti þessari alþjónustu sem við höfum verið með skuldbindingar í verði sinnt. Það hefur auðvitað áhrif á póstdreifinguna en einnig á starfsemi þeirra fyrirtækja sem við eiga að búa.

Virðulegi forseti. Það hefði verið nauðsynlegt að geta talað um þessi mál miklu frekar. Ég hef tæpt á fáeinum atriðum sem mér finnst skipta máli, en það sem mér finnst óþægilegt við báðar þessar fjarskiptaáætlanir er að þær eru ekki verkefnabundnar. Maður sér ekki fyrir sér af lestri þessara áætlana nema með mjög almennum hætti hvað er fram undan. Hvað gerist til dæmis í uppbyggingu GSM-sambands á þjóðvegunum? Hvað gerist í uppbyggingu fjarskipta fyrir sjómenn? Hvað gerist í sambandi við uppbyggingu á tölvusamskiptum við fjarlægari byggðir, veikari byggðir og annað slíkt? Hvað mun gerast í þessum póstmálum okkar eftir áramótin ef ég skil það rétt að einkaréttarþjónustan sé að hverfa úr gildi alveg á næstu vikum, liggur mér við að segja?