141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

172. mál
[17:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er ásetningur minn að reyna að sjá til þess að svo verði. Ég hef lýst því yfir í ríkisstjórn og hef opinberlega lýst því yfir áður. Það er hins vegar þannig að það er sitthvað sem við komumst ekki upp með gagnvart heilagri ritningu Evrópusambandsins. Við erum knúin til að gera sitthvað sem okkur líkar ekki. Ég hef efasemdir um, og er sammála Norðmönnum hvað það snertir, að þetta eigi að heyra undir EES-samninginn og ég er andvígur því. En við höfum í þessu efni ákveðið samflot með Norðmönnum sem einnig eiga í viðræðum við ESB um þetta atriði.

Þetta er minn vilji og minn ásetningur. Hvað við síðan komumst upp með að gera skal ég ekkert fullyrða um, ég get það að sjálfsögðu ekki, en þannig vil ég hafa þetta. Ég hef alltaf verið mjög andvígur afnámi einkaréttar Pósts og síma. Ég hef verið mjög eindregið andvígur því og mun gera það sem ég mögulega get til að koma í veg fyrir að sá réttur verði afnuminn.