141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

umferðarlög.

179. mál
[17:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. innanríkisráðherra sagði, það eru mjög mörg álitamál í þessu frumvarpi sem munu auðvitað koma til skoðunar, í fyrsta lagi í nefndinni og síðan til ítarlegri umræðu við 2. umr. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara í stóra umræðu um frumvarpið, ég ætla eingöngu að fjalla um mjög afmarkaðan þátt málsins, ég ætla að tala um hross.

Ég tel að það sé miður að ekki skuli vera kveðið á um það í frumvarpinu með hvaða hætti staða ríðandi fólks á reiðvegum er tryggð. Eins og Landssamband hestamannafélaga hefur bent á ruddu bílarnir hestunum út af þjóðvegunum á sínum tíma. Þá var farið að gera reiðvegi. Nú er það þannig að hestamenn eru ekki lengur einráðir á reiðvegum sínum, þar hefur vélknúin umferð aukist, sem er hættuleg ríðandi fólki og öðrum þeim sem þarna fara um. Það hefur líka færst í vöxt að þessi vélknúna umferð liggi um svæði hestamanna, hesthúsa o.s.frv. þar sem oft eru börn að leik. Hér er því um að ræða heilmikið öryggismál sem mér finnst ótækt annað en að sé tekið tillit til með einhverjum hætti.

Á fyrri stigum málsins var kveðið á um það með fullnægjandi hætti, að ég hygg, að reiðvegir væru eingöngu fyrir ríðandi fólk, hestamenn sem þarna færu um, en ég finn það þó ekki í frumvarpinu. Ég veit að hestamenn, bæði Landssamband hestamannafélaga, Félag hrossabænda og fleiri, hafa af þessu miklar og þungar áhyggjur. Ég skora á hæstv. ráðherra, sem ég veit að hefur skilning á málefnum hestamanna, að leggja mér nú lið í þeim efnum að tryggja að þegar málið fari í gegnum þingið verði það gert með þeim breytingum að kveðið verði afdráttarlaust á um réttindi hestamanna og ríðandi fólks á reiðvegum landsins.