141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

umferðarlög.

179. mál
[17:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út í mjög nákvæma umræðu um þetta efni án þess að afla mér frekari upplýsinga um málið, en það er alveg rétt að í mínum huga er mikilvægt að tryggja hagsmuni hestamanna og er sérstaklega kveðið á um það í samgönguáætlun hvernig það skuli gert. Það lagafrumvarp sem við ræðum hér fjallar fyrst og fremst um umferð á vegum en mér er kunnugt um þessar umræður. Ég hef átt viðræður við fulltrúa hestamanna og samtök þeirra, reyndar einnig þeirra sem aka á fjórhjólatækjum. Þarna hefur verið uppi ákveðinn ágreiningur sem er mjög mikilvægt að leiða til lykta með góðu samkomulagi. En ég þarf einfaldlega að skoða það betur hvað af þessu heyrir til þessara laga eða annarra laga áður en ég tjái mig frekar um málið.