141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

umferðarlög.

179. mál
[17:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að tæknilega fari betur á því að þessi ákvæði séu í annarri löggjöf, ég er þó ekki viss um það. Ég vil halda eftirfarandi til haga: Á fyrri stigum við undirbúning málsins, í drögum sem kynnt voru hagsmunaaðilum, hefur málið verið lengi í bígerð og undirbúningi og hafa mjög margir átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er að nokkru leyti rakið í greinargerðinni með frumvarpinu.

Á fyrri stigum málsins var gert ráð fyrir því að kveðið væri afdráttarlaust á um réttindi ríðandi fólks á reiðvegum. Reiðvegir eru reiðvegir, þeir eru ekki vegir fyrir vélknúin ökutæki. Við sjáum það til dæmis í samgönguáætlun, áður vegáætlun, að þar er sérstakur liður um lagningu reiðvega og koma hestamannafélögin að því að gera tillögur um hvar bera skuli niður við uppbyggingu á þessum mannvirkjum. Það er því alveg skýrt mál af hálfu löggjafans þegar við fjöllum um þessi mál að þetta eru vegir fyrir hesta og hestamenn en ekki fyrir vélknúin ökutæki.

Ástæðan fyrir því að við leggjum reiðvegi er auðvitað sú að við gerum okkur grein fyrir því að marka þarf þessum leiðum annan sess en vegagerð af einhverjum toga fyrir vélknúin ökutæki. Það gerum við í öryggisskyni, það gerum við til þess að fólk sem stundar hestamennsku eigi þess kost að geta gert það af sæmilegu öryggi og notið þeirrar dásamlegu tilfinningar sem fylgir því að sitja hest. Þess vegna hvet ég mjög til þess að fyrir þessu sé séð. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu, til dæmis við meðferð málsins, að ekki sé ástæða til að hafa það í þessari löggjöf tel ég nauðsynlegt að flytja um það frumvarp — nefndin gæti gert það eða þá einstakir þingmenn — þar sem kveðið væri afdráttarlaust á um það í löggjöfinni (Forseti hringir.) þannig að öryggi manna væri tryggt sem og hagsmunir hestamennskunnar.