141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

gjaldeyrisstaða Landsbankans.

[15:07]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nei, ég tel ekki að gerð hafi verið mistök þegar íslensku bankarnir voru reistir við og endurfjármagnaðir og samkomulag tókst við kröfuhafana eða gömlu bankana um þau mál. Það var lífsnauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag að sú aðgerð gengi hratt fyrir sig og kláraðist og bankarnir yrðu fjármagnaðir og yrðu starfhæfir, það var forsenda þess að þeir gætu síðan tekið til við að vinna úr skuldum viðskiptavina sinna o.s.frv. Ég held því hiklaust fram að unnið hafi verið ótrúlega mikið starf á tiltölulega skömmum tíma við að leiða það allt saman í höfn fyrir árslok 2009. Að sjálfsögðu voru þeir samningar unnir með nýju bönkunum og þeir voru með í ráðum þegar sú leið var valin sem til dæmis var valin í tilviki Landsbankans, að þetta væru tvö skuldabréf í erlendum myntum. Fyrir því voru ýmis góð og gild rök og eru í sjálfu sér enn þó að hitt sé rétt að á meðan bankinn hefur ekki tryggt sér aðgang að erlendum fjármálamörkuðum er staðan þröng fyrir hann að standa skil á þessum greiðslum. Sem betur fer hefur tekist samkomulag um uppígreiðslur sem gefur Landsbankanum lengri tíma til að búa sig undir frekari greiðslur síðar meir. Langæskilegast væri að samningar tækjust síðan um hvernig því yrði dreift. Unnið er að því að leysa það í góðu samstarfi á milli gamla og nýja bankans og setja þá upp nýja endurgreiðsluáætlun kannski yfir eitthvað lengri tíma með hliðsjón af því bráðabirgðasamkomulagi sem þegar hefur tekist um uppígreiðslurnar.

Seðlabankinn hefur þarna líka áhyggjur af því að á meðan Landsbankinn hefur ekki tryggan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum er hættan sú að hann taki að hamstra gjaldeyri á innlendum markaði til að undirbúa og eiga fyrir afborgunum. Það hefur ekki heillavænleg áhrif á gjaldeyrismarkaðinn, það er alveg ljóst, enda er Landsbankinn mjög stór aðili á þeim markaði sem tekur á móti miklu af gjaldeyristekjunum. Það er mikilvægt fyrir markaðinn að hann skili því en liggi ekki á því sjálfur.

Ég les líka út úr þessum efasemdum Seðlabankans áhyggjur af jafnvæginu á okkar grunna gjaldeyrismarkaði, ekki bara greiðslujöfnunardæminu stóra í heild sinni, sem ég held að sé vel viðráðanlegt og leysanlegt í þessu tilviki, en forsendan er sú að tíminn sé nægjanlegur og að bankinn hafi tryggt sér aðgang að erlendum gjaldeyrismörkuðum. Það er það sem þarf að takast á næstu mánuðum og missirum að íslensku bankarnir komist í eðlilegt umhverfi hvað þetta varðar.