141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

[15:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku var svokölluð kjördæmavika þar sem við þingmenn áttum þess kost að fara um kjördæmin. Þingmenn Suðurkjördæmis fóru allir sem einn og hittu meðal annars sveitarstjórnir og er ákaflega áhugavert að heyra mismunandi hljóð í mönnum, svona hvaða tónn er á hverju svæði.

Það sem var áberandi á hinu dreifbýla svæði, við skulum bara segja frá Hvolsvelli og austur að Höfn, voru tvö mál sem snerta grunnþjónustuna og eru gríðarlega mikilvæg. Annað varðar Fjarskiptasjóð og forgangsröðun verkefna þar, og ég óskaði eftir sérstakri umræðu við innanríkisráðherra um það en geymum hana. Hitt er jöfnun húshitunarkostnaðar. Staðreyndin er sú að á þessum svæðum sem eru auk þess láglaunasvæði fara ein mánaðarlaun þessa fólks í að greiða kostnað við húshitun umfram aðra, þ.e. við getum sagt að það fái laun ellefu mánuði ársins.

Hér var unnin skýrsla sem skilað var í desember 2011 sem snerist um það að jafna húshitun. Í tillögu var fyrst og fremst talað um að leggja, ef ég man rétt, 10 aura á hverja kílóvattstund eða 1.700 milljónir og þá mundi jöfnunin verða fullkomin, þ.e. ekki yrði tekin ákvörðun um það á þingi í hvert sinn því að það hefur því miður dregið úr þeim fjárframlögum sem hafa verið lögð þar fram, þá mundi hún vera sjálfvirk eins og með olíu, mjólk og fleiri þætti sem kosta það sama alls staðar á landinu — því ekki rafmagn? Ein tillaga hefur komið til framkvæmda hjá ríkisstjórninni út úr þessum pakka, sem innihélt fjölmargar aðrar tillögur um jöfnun raforkukostnaðar, og snerti styrki til hitaveitu og var hið besta mál.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að fara og klára þessa leið með 10 aura jöfnun á hverja kílóvattstund og fylgja þar af leiðandi eftir þeirri skýrslu sem kom hingað fyrir nærri ári, (Forseti hringir.) og ef það stendur ekki til hvort eitthvað standi í vegi fyrir því.