141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þarf í sjálfu sér enga leiðbeiningu um það hvers eðlis þessi kosning er, að þetta sé leynileg kosning. Málið er ósköp einfaldlega þannig vaxið að það er að koma núna til afgreiðslu og það er ekkert undarlegt við það að þingmenn og jafnvel hæstv. ráðherrar séu spurðir þessarar spurningar. Það gleður mig mjög að heyra að hæstv. ráðherra ættaður frá Gunnarstöðum í Þistilfirði styður ekki þetta ákvæði, það er augljóst af svari hans. Ég þakka fyrir það að hann er íhaldsmaður í sér í þessum efnum og því ber að fagna.

Ég vil þá hnýta annarri spurningu við sem er sú hvort hann sé sammála Þorvaldi Gylfasyni sem ríður nú um héruð og fylgir þessu máli úr hlaði og hefur komist þannig að orði að ef tillaga stjórnlagaráðs varðandi fyrstu spurninguna verði samþykkt verði ekki einu einasta orði hnikað til í tillögum stjórnlagaráðs á Alþingi í meðferð þessa máls. Er hæstv. ráðherra sammála þessari afstöðu?