141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

gengistryggð lán.

[15:27]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála fyrirspyrjanda, það er afar brýnt að fá botn í þessi mál. Það var sameiginlegt mat þeirra sem skoðuðu þetta að vænlegasta leiðin til þess væri sú sem farin var, að velja út öll þau prófmál sem menn töldu að kynnu að hafa gildi til þess að fá endanlegar og efnislegar niðurstöður í öllum tilvikum sem ættu við. Það endaði í ellefu stykkjum eins og kunnugt er. Heimilað var ákveðið samstarf um það til að hraða þeim málum til þingfestingar. Við vorum síðast þessa dagana að fara yfir það og athuga hvar þau væru á vegi stödd í gegnum Samtök fjármálafyrirtækja. Reyndar verður að segja eins og er að því miður hafa nokkur þeirra tafist, það er mjög slæmt. Ég hafði meira að segja samband við bankastjóra sem í hlut eiga og þeir fullvissuðu mig um að allt væri gert sem hægt væri til að þau næðu þingfestingu á næstu vikum, tíu dögum eða svo. Það voru vonbrigði fyrir mig að heyra að sum þeirra væru ekki enn komin til dómsins en staðan er bara þannig. Nokkur þeirra eru lögð af stað og munu þau vonandi öll fara þá leið á allra næstu vikum en því miður ekki fyrr.

Ég held að allir sem að málinu koma og dómstólarnir þar með taldir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að fá botn í þetta sem allra fyrst þannig að tryggt verði að málin fái algera flýtimeðferð og forgang eins hratt og þau eru tilbúin. Sum þeirra eru tafsöm, einhver voru sett í hendur lögmanna úti í bæ til vinnslu fyrir viðkomandi aðila og það hefur tekið sinn tíma o.s.frv. Við höfum fylgst grannt með þessu og gerum allt sem við getum til að þrýsta á um að þessu verði hraðað.