141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

gengistryggð lán.

[15:28]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar aðeins að fylgja þessu eftir. Er ráðherrann sannfærður um að þessi ellefu mál svari öllum þeim spurningum sem þarf að svara? Ég vil einnig benda á að ekki munu allir fá leiðréttingu því að þeir sem tóku lán hjá Íslandsbanka eru í annarri stöðu en þeir sem voru hjá hinum viðskiptabönkunum því að nýlega dæmdi Hæstiréttur þau lán lögleg, engu að síður fengu þau þá meðferð sem lög nr. 158/2010 skelltu á öll lán og sumir eru jafnvel í verri stöðu en ef þeir hefðu enga leiðréttingu fengið.

Nýlega skoðaði ég lán frá 2004 hjá Íslandsbanka sem stóð í 17 milljónum í ársbyrjun 2008 en það stendur nú í 37 milljónum þrátt fyrir að greitt hafi verið af því alla tíð. Þetta er því meira en 100% hækkun. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann muni beita sér fyrir því eftir þessi ellefu dómsmál að þetta fólk (Forseti hringir.) fái einhverja sanngjarna niðurstöðu í sín mál.