141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

samkomulag um fyrir fram greiddan skatt.

[15:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru síðan var gert samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og fyrirtækja í iðnaði. Það samkomulag byggði á því að menn treystu því að við það yrði staðið. Það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir þá sem eru í atvinnurekstri og þá sem hafa í hyggju að fjárfesta á Íslandi að geta treyst því sem ríkisvaldið gerir, segir og skrifar undir.

7. desember 2009 var gert samkomulag er varðar raforkuskatt og fyrirframgreiðslu tekjuskatts og annarra opinberra gjalda hjá ákveðnum fyrirtækjum. Samkvæmt samkomulaginu átti þetta að standa í þrjú ár frá 2010 að telja og falla niður í lok árs 2012. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þannig að það samkomulag sem þarna var gert sé einskis virði þegar ríkisvaldið gerir samkomulag við fyrirtæki eða einstaklinga. Er það þannig að frá því að samkomulagið var gert hafi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna aldrei ætlað sér að standa við það að skattar þeirra fyrirtækja yrðu lækkaðir til samræmis við þetta samkomulag við árslok 2012.

Við hljótum að spyrja um það af því að fátt er okkur mikilvægara en að eitthvert traust og trúnaður sé á því að fyrirtæki geti rekið sig á Íslandi. Fyrir mér er það stóralvarlegt mál þegar ríkisvaldið stendur ekki við gerða samninga. Því spyr ég ráðherra hvort aldrei hafi staðið til að standa við þetta samkomulag.