141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

samkomulag um fyrir fram greiddan skatt.

[15:33]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það var ekki þannig að með gerð þessa samkomulags afsöluðu stjórnvöld sér til framtíðar réttinum til að leggja til einhverja frekari skattlagningu eða áframhaldandi skattlagningu af þessu tagi. Það er beinlínis rangt að halda því fram enda geta stjórnvöld það ekki. Það vald liggur hér og ef Alþingi vill ekki skattlagningu af þessu tagi þá ræður það því.

Ég fór sérstaklega yfir þetta að gefnu tilefni þegar umræða kom upp í sumar með þeim mönnum sem voru með mér í þessari vinnu á sínum tíma og okkur ber öllum saman um það. Það er rangt að halda því fram að við höfum gefið loforð fyrir því að þessi skattlagning félli niður og ekkert annað kynni að koma í staðinn. (Gripið fram í: Af hverju var þá …?) Við settum inn allmikið af tímabundnum tekjuöflunaraðgerðum af þessu tagi og það varð niðurstaðan í nokkrum tilvikum að hafa það ýmist til tveggja eða þriggja ára eins og kunnugt er. Þetta samkomulag var fjölþættara en bara 12 aurarnir á raforku og heitt vatn. Það var líka um fyrirframgreiðslu tekjuskattsins og fleiri þætti. Auðvitað geta þeir sem þarna stóðu að samkomulaginu á móti stjórnvöldum sagt að þeir hafi verið í góðri trú af því að þetta var tímabundin löggjöf í þrjú ár að ekkert framhald yrði á henni en þeir höfðu ekkert loforð um að svo gæti ekki orðið. Enda voru þeir órólegir yfir því og vildu gjarnan ná fram einhverju meiru en því sem þarna stendur af því að margir þeirra höfðu, skiljanlega kannski í ljósi reynslunnar, illan bifur á því að skattlagningin kynni að verða lífseigari en bara þessi þrjú ár. Það hefur stundum gerst áður.

Svona get ég sagt frá þessu miðað við mitt minni og mína bestu vitund. Þetta var svona. Engu var lofað um það að ekki yrði leitað eftir framlengingu enda ekki hægt því það er löggjafans að lokum að eiga síðasta orðið í þessum efnum. (Gripið fram í.) Stjórnvöld geta ekki lofað því fyrir fram að þessi eða hin skattlagningin komi ekki til greina einhvern tíma í framtíðinni.