141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[16:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það einkennir hæstv. utanríkisráðherra, þegar hann kemst í þrot og getur ekki svarað málefnalega þeim spurningum sem beint er til hans, að hann grípur til útúrsnúninga. Það gerðist hér og það hefur ævinlega gerst í þessari umræðu um Evrópusambandsmálin að utanríkisráðherra grípur til þess.

Í viðtali við hv. þm. Árna Pál Árnason í útvarpinu um helgina kom nokkuð merkilegt fram. Hann sagði að Samfylkingunni hefði tekist við myndun síðustu ríkisstjórnar, gegn vilja samstarfsflokksins, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hvað sjáum við núna? Samfylkingin hefur náð undraverðum árangri gegn þjóðarvilja. Meiri hluti þjóðarinnar er andsnúinn Evrópusambandsaðild, meiri hluti þjóðarinnar vill draga Evrópusambandsumsóknina til baka, en Samfylkingunni, sem er komin niður fyrir 20%, eina stjórmálaflokknum sem er með málið á stefnuskrá, hefur tekist að ná þessu máli í gegn.

Hvað er að gerast? Nú fara kosningar að nálgast. Þá heyrum við ráðherra og þingmenn Vinstri grænna fara að tala um að þetta mál sé komið í öngstræti og að það þurfi að endurskoða. Vandamál Samfylkingarinnar er það að flokkurinn er að einangrast í afstöðu sinni til Evrópusambandsins.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði líka í áðurnefndu viðtali að Samfylkingin mætti ekki útiloka neina kosti til stjórnarmyndunarviðræðna að loknum næstu kosningum. En hvað ætlar Samfylkingin að gera? Einn flokka með það á stefnuskrá sinni að vilja ganga inn í Evrópusambandið, einn flokka með það á stefnuskrá sinni að sjá ekkert nema Evrópusambandið. Ætlar Samfylkingin að gefa þetta eftir við myndun ríkiksstjórnar næst? Hún er búin að klára Vinstri græna. Það er enginn trúverðugleiki eftir þar, stærsta kosningamálið svikið strax að loknum kosningum. Ætlar Samfylkingin að láta einangra sig algerlega í þessu máli, eða eru menn að sjá ljósið?

Ég held að menn séu að sjá ljósið. Það er þess vegna sem utanríkisráðherra fer undan í flæmingi og svarar ekki málefnalega þeim spurningum sem beint er til hans. Það er þess vegna sem menn grípa til þess ráðs að tala um (Forseti hringir.) að aukna umræðu vanti, hún sé ekki nægilega upplýst og annað.

Vandamál Samfylkingarinnar er (Forseti hringir.) að þjóðin er miklu betur upplýst en hæstv. utanríkisráðherra vill láta (Forseti hringir.) í veðri vaka. (Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)