141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[16:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er gleðilegt að heyra að hv. málshefjandi fylgir stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum og vísar í landsfundarályktun. Það er bara óvart allt önnur stefna en formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir ítrekað upp á síðkastið. (Gripið fram í: Svaraðu spurningunum.) Síðan vil ég segja að ég er nokkuð ánægður með tóninn í þessari umræðu. Hann er málefnalegri en oft áður og mér finnst það benda til að menn séu kannski farnir að gera það upp við sig að það sé í þágu hagsmuna Íslendinga (REÁ: Svarar ekki spurningum.) að leyfa þeim að gera upp hug sinn.

Hv. þingmaður kvartar undan því að ég svari ekki spurningum hennar. Hún afhenti mér lista fyrir umræðuna með 16 spurningum og bætir síðan tveimur við. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að svara þeim öðruvísi en í símskeytastíl eins og ég reyndi hér áðan?

En það er að vísu rétt hjá hv. þingmanni, ég svaraði ekki tveimur spurningum. Það var í fyrsta lagi um skjólið margumrædda og í öðru lagi hvort kosið yrði um evruna. Auðvitað verður ekki kosið um evruna sem slíka. Það er einfaldlega þannig að þau ríki sem ganga í Evrópusambandið verða að taka upp evruna einhvern tímann. Áður verða þau að ganga í ERM II. Það veit hv. þingmaður vegna þess að við höfum rætt það áður hér. Það er skjólið sem krónan kemst í.

Mér þótti athyglisvert að mörgu leyti að hlýða á mál hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem vill láta endurskoða EES-samninginn sem hún segir að sé aðlögunarsamningur. Það er alveg hárrétt hjá henni. Hann er aðlögunarsamningur. Það lá fyrir frá upphafi. Það sem er verra er að hann er farinn að ganga út yfir mörk stjórnarskrárinnar. Það finnst mér slæmt. Þannig að annaðhvort verðum við í framtíðinni að endurskoða EES-samninginn eða breyta stjórnarskránni. Svo einfalt er það.