141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

sérmerking á vörum frá landtökubyggðum.

127. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að ræða málefni Palestínumanna vegna framferðis Ísraela. Ég hef svo sem oftar komið í ræðustól til að ræða harkalega framkomu þeirra gagnvart almenningi í Palestínu, hvort heldur er á Gaza-svæðinu eða á vesturbakka Jórdan. Þar hafa Ísraelsmenn óyggjandi brotið alþjóðalög, farið með forhertum hætti yfir landsvæði Palestínumanna sem þeir eiga með réttu og útilokað almenning frá því að yrkja jörðina og koma vörum sínum á markað. Þeir hafa í raun og sann notað sömu aðferð og notuð var í Suður-Afríku á sínum tíma; að fara skipulega þvert í gegnum land íbúanna til þess að eyðileggja og lama alla innviði. Þetta er gert skipulega. Suður-afríska leiðin er notuð til að lama uppbyggingu samfélagsins.

Þess vegna er sérstakt gleðiefni að það skuli einmitt vera Suður-Afríka sem leggur til að sérmerkja vörur sem koma frá landtökubyggðum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir þekkja af reynslunni hvernig apartheid-stefnan lék þjóðina þar suður frá og leggja nú sitt af mörkum til að vekja athygli á þeirri ómennsku sem þarna er látin líðast þrátt fyrir að hún brjóti í bága við alþjóðalög og hver samningurinn af öðrum sé þar brotinn.

Það er langur vegarkafli frá Reykjavík til Eskifjarðar, 702 kílómetrar. Það er ígildi múrsins sem Ísraelsmenn hafa byggt umhverfis hina palestínsku þjóð. Þar fyrir utan eru þeir búnir að ræna þá býsn allri af landi. Ég tel eðlilegt að Íslendingar taki af skarið í þessum efnum og líti á vörur sem koma frá Ísraelsmönnum af herteknum svæðum, landtökusvæðum, rændu svæðum, sem ránsfeng. Þarna er verið að búa til vörur á landi sem hefur verið rænt frá fólki sem á að geta þroskað þarna sinn leik og sitt starf.

Þess vegna spyr ég hæstv. utanríkisráðherra hvort það komi til greina af hálfu íslenskra stjórnvalda að láta sérmerkja vörur sem koma frá þessu rænda (Forseti hringir.) landsvæði fyrir botni Miðjarðarhafs.