141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

sérmerking á vörum frá landtökubyggðum.

127. mál
[16:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Landtaka Ísraelsmanna á Vesturbakkanum er mjög strategísk, ég hef kynnt mér það mjög vel. Ég hef skoðað og lesið skýrslur um aðalskipulag Jerúsalem. Það er makalaust að sjá hvernig því hefur verið fylgt eftir í töluvert langan tíma, beinlínis með það fyrir augum að ná í reynd yfirtökum á þessari sögufrægu borg og líka austurhlutanum. Sjálfur hef ég séð það með því að ganga þar um strætin eins og ágætur maður forðum, [Hlátur í þingsal.] en það eru tvö þúsund ár síðan.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi að hann hefði í bígerð að semja og leggja fram þingmál um þetta og spurði hvort ég teldi að þess væri þörf, eða þannig skildi ég spurningu hv. þingmanns. Því er til að svara að ég taldi á sínum tíma að ekki þyrfti formlegan atbeina Alþingis til að hægt væri að ganga frá fullveldisviðurkenningunni gagnvart Palestínu. Ég taldi hins vegar að pólitískt yrði miklu mikilvægara að hafa þann stuðning að baki eins og kom í ljós, sem ég tel að hafi verið það allra merkilegasta sem gerst hefur í þessum sal frá því að ég tók hér sæti árið 1991, þegar enginn þingmaður á Alþingi Íslendinga greiddi atkvæði gegn því. Þá loksins fannst mér að réttlætið hefði fundið sér farveg í gegnum Alþingi Íslendinga. Það er ekki oft sem réttlætinu er fullnægt í þessari veröld, því miður.

Svar mitt til hv. þingmanns er því að ég tel að hann eigi ekki að hika við að leggja fram slíkt þingmál. Ég tel jafnvel að bara það að slíkt mál komi fram, sérstaklega frá formanni utanríkismálanefndar, sé í sjálfu sér ákveðin skilaboð og væri þarft fyrir ríkisstjórnina að hafa á bak við sig þegar hún grípur til úrlausna í þessu máli.

Ég vil síðan þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að færa þetta mál hér upp. Það er mjög jákvætt að menn sofni aldrei á þessum verði.