141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

malbikun bílastæða við Reykjavíkurflugvöll.

13. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Þann 15. júní síðastliðinn var birt á heimasíðu Flugfélags Íslands mjög ánægjuleg orðsending um að malbikun og framkvæmdir á bílastæðum við Reykjavíkurflugvöll hæfust mánudaginn 18. júní. Það átti að vera til að bæta gæði og þjónustu við farþega Flugfélags Íslands og jafnframt var beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem viðskiptavinir flugfélagsins yrðu fyrir af þeim sökum.

Síðan höfum við sem förum um þennan flugvöll séð að þarna er búið að fylla upp, slétta af og undirbyggja fyrir malbik en ekkert hefur gerst. Þess vegna, virðulegi forseti, legg ég fram fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra — um leið og ég býð hana hjartanlega velkomna til þess starfs og óska henni allra heilla — um það hvers vegna Flugfélag Íslands hefur ekki fengið leyfi ráðherra eða fjármálaráðuneytis, sem fulltrúa eigenda lands sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á, til að malbika bílastæði við Reykjavíkurflugvöll.

Eins og kom fram í umræðu um daginn við hæstv. innanríkisráðherra um flugstöðina hefur flugfélagið lagt inn umsókn um að fá að byggja flugstöð á vestursvæðinu. Það hefur ekki verið heimilað. Beðið hefur verið lengi eða í rúmlega eitt og hálft ár eftir svörum frá borginni um það en engin svör hafa borist. Það var þá sem þeir hjá flugfélaginu vildu, virðulegi forseti, fá að snyrta í kringum sig og malbika bílastæðin. Það gerðu þeir á forsendum þess að þeir höfðu þinglýst leyfi frá borginni, gefið út árið 2007, til að stækka bílastæðin. En þá var því frestað að malbika þau vegna þess að ekki var klárt hvort samgöngumiðstöðin yrði byggð norðan við Loftleiðahótelið. Núverandi hæstv. innanríkisráðherra hefur gert samkomulag við borgina um að svo verði ekki, en leyfið frá 2007 er þó í fullu gildi. Eftir samræður við borgina og Bílastæðasjóð hóf flugfélagið þessar framkvæmdir.

Þá bregður svo við, virðulegi forseti, að Isavia og fjármálaráðuneytið, að mér skilst, telja að leyfi landeigenda þurfi fyrir þessum aðgerðum. Ég minni á það að ríkið á stóran hluta af landinu. Þetta var í raun í fyrsta skipti, eftir því sem mér er sagt, sem landeigandi og Isavia skiptu sér af framkvæmdum á þessu svæði. Við sem förum þarna um sjáum að þarna hefur margt verið gert af flugfélaginu, ef til vill vegna þess að Isavia hefur ekki fjármagn til að gera það.

Borgin hefur sem sagt stöðvað þessar framkvæmdir og mínar upplýsingar eru þær að flugfélagið hafi beðið um að fjármálaráðuneytið samþykki að gefið verði út leyfi svo að þær megi verða að veruleika.

Virðulegi forseti. Staðan er einfaldlega þannig á Reykjavíkurflugvelli að ekki fæst leyfi til að byggja flugstöð vegna Reykjavíkurborgar og nú fæst ekki leyfi til að malbika bílastæði vegna ríkisins. Þetta er framkvæmd upp á hvorki meira né minna en 80 millj. kr. og þess vegna leyfi ég mér að leggja þessa spurningu (Forseti hringir.) fyrir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra landsins.