141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

malbikun bílastæða við Reykjavíkurflugvöll.

13. mál
[16:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka góðar kveðjur frá hv. þm. Kristjáni Möller.

Ég hef leitað mér upplýsinga um þetta mál eftir að ég fékk þessa fyrirspurn. Það er svo að Isavia fer með stjórn flugvallarsvæðisins fyrir hönd ríkisins en Reykjavíkurborg og ríkið eiga landið. Nú í vor, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, hóf flugfélagið þessar framkvæmdir án þess að leita samþykkis landeigenda og taldi flugfélagið sér það ekki skylt. En það er líka sjónarmið ráðuneytisins að þar að auki hafði flugfélagið ekki sótt um nein leyfi fyrir framkvæmdunum til Reykjavíkurborgar, hvorki byggingarleyfi né framkvæmdaleyfi. Þarna greinir menn augljóslega á.

Isavia og síðan ráðuneytið beindu þeim tilmælum til flugfélagsins að stöðva framkvæmdirnar og buðust til þess að yfirtaka verkið og ljúka því. Þeir segja flugfélagið hafa hafnað því, svo ég reki í stuttu máli hvaða upplýsingar ég hef fengið um málið. Þar af leiðandi hafi ráðuneytið og Isavia verið tilneydd til beina kröfu um stöðvun framkvæmdanna til Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt mínum upplýsingum hefur Isavia frá þeim tíma átt í viðræðum um málið við Flugfélag Íslands. Ástæður sem gefnar eru upp fyrir því að ráðuneytið og Isavia létu stöðva þessar framkvæmdir og geti ekki veitt Flugfélagi Íslands heimild til að ljúka við gerð og rekstur gjaldskyldra bílastæða við Reykjavíkurflugvöll eru einkum þær að land í og við flugvöllinn sé mjög takmarkað og það sé mikilvægt starfsemi hans. Rekstraraðila flugvallarins, Isavia, ber að tryggja heildarhagsmuni allra notenda vallarins en ekki bara einstakra flugrekenda. Þá þarf að gæta jafnræðis gagnvart rekstraraðilum á flugvellinum en ríkar kröfur eru gerðar þar um í lögum og reglum sem gilda um rekstur flugvalla. Sjá þarf öllum notendum flugvallarins fyrir bílastæðum.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli mína á þessu máli. Eftir að ég hef farið í gegnum söguna og hvað hefur gerst í sumar sýnist mér að menn ættu að geta leyst það. Ég mun fara þess á leit við alla málsaðila að þeir setjist niður og finni lausn á málinu sem allra fyrst, lausn sem sómi er að og sættir bæði sjónarmið, þ.e. að þarna verði malbikuð bílastæði, en þau skipta líka máli fyrir viðskiptavini flugvallarins, og sömuleiðis að menn tryggi það jafnræði sem gerð er svo rík krafa um. Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að menn geti lokið þessu máli sem fyrst svo að sómi sé að fyrir alla aðila.