141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

lífeyristökualdur.

95. mál
[16:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa spurningu.

Í stöðugleikasáttmálanum, sem var undirritaður sumarið 2009 af ríkisstjórn og aðilum vinnumarkaðarins, var meðal annars kveðið á um stofnun nefndar sem hefði það hlutverk að móta framtíðarsýn í lífeyrismálum. Nefndin hefur nú verið að störfum í rúm tvö ár. Þar hafa allir þættir sem hafa áhrif á afkomu lífeyrissjóðanna verið skoðaðir, þar á meðal þessi. Nefndarstarfið er með allt undir, þar á meðal lífeyristökualdurinn. Ég vonast til að þeirri vinnu ljúki á þessum vetri.

Í þessum hópi eiga sæti fulltrúar fjármálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins, ASÍ, BHM, BSRB, Kennarasambandsins, Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Lífeyristökualdur sjóðsfélaga hefur vissulega mikil áhrif á stöðu lífeyrissjóða. Sá möguleiki að hækka lífeyristökualdur hefur því, eins og ég sagði áðan, verið til umræðu enda ljóst að ævilíkur fólks munu halda áfram að aukast. Meðalaldur hækkar um eitt ár á hverjum 10 árum samkvæmt spám og reynslu síðustu ára og áratuga. Hækkun lífeyristökualdurs að öðru óbreyttu mundi leiða til betri afkomu sjóðanna. Með hækkun væri bæði verið að ávaxta iðgjöld lengur og líka fresta lífeyrisgreiðslum.

Ef kerfið á að vera sjálfbært þyrfti að hækka lífeyrisaldurinn jafnt og þétt. Eins og staðan er í dag eru fimm vinnandi aðilar að baki hverjum lífeyrisþega, en ef fram heldur sem horfir er talið að um árið 2050 verði þeir eingöngu tveir miðað við lífslíkur og mannfjöldaspá. Þetta er því spurning sem skiptir okkur miklu að velta fyrir okkur og skiptir máli að við skoðum vel. Það þarf líka að tryggja sjóðssöfnun til að eiga fyrir þessu. Ef aldurinn er til dæmis hækkaður í 70 ár eru minni líkur á skertum greiðslum úr sjóðnum og meiri líkur á að menn fái út úr sjóðnum það sem þeir leggja til hans eins og staðan er núna.

Virðulegi forseti. Lífeyristökualdur er breytilegur milli opinbera kerfisins og hins almenna kerfis. Í opinbera kerfinu eru það 65 ár, en þó með þeim sveigjanleika að hægt er að byrja 60 ára en hætta 70 ára. Á hinum almenna vinnumarkaði erum við að tala um 67 ára mark, en það er ekkert hámark. Tölurnar eru þannig að hlutfall þeirra sem vinna lengur en til 67 ára aldurs eru um það bil 40%. Hlutfall þeirra sem eru enn starfandi eftir 70 ára aldur er um 13%. Ég læt það fylgja hér með.

Þessi mál eru til skoðunar í umræddri nefnd. Ég á von á því að við eigum eftir að fá einhverja niðurstöðu úr henni og vonandi fyrr en síðar.