141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

lífeyristökualdur.

95. mál
[16:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Þetta er afskaplega mikilvægt mál. Inn í afkomu lífeyrissjóðanna koma þrír þættir aðallega, það eru raunvextir sem þeir ná á iðgjöld umfram þá verðtryggingu sem lífeyrir byggir á, iðgjald frá launþegum og atvinnurekendum og að síðustu eru það ellilífeyrismörkin. Ég held að ekki sé mikill möguleiki á að hækka raunvextina vegna þess að lítið er um fjárfestingartækifæri í landinu. Fyrirtæki og launþegar bera heldur ekki mikið hærri iðgjöld. Þá eru það ellilífeyrismörkin sem hv. þingmaður nefnir sem lausn og ég held að menn ættu að horfa þangað.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að taka á vanda LSR, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þar sem annars vegar vantar 400 milljarða og hins vegar 47 milljarða inn í A-deild sem átti að vera sjálfbær.