141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

kostnaður við íþróttaiðkun landsbyggðarfólks.

136. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Við þekkjum öll hversu mikilvægt það er að hafa öflugt íþróttalíf, ekki eingöngu á suðvesturhorninu heldur um land allt. Ég held að þingheimur hafi í áranna rás einmitt sammælst, góðu heilli, um það að reyna að styðja við íþróttastarf, ekki síst á landsbyggðinni. Því hefur verið ógnað í gegnum tíðina vegna mikils ferðakostnaðar íþróttafólks, ekki bara meistaraflokka þeirra liða og félaga sem starfa á landsbyggðinni. Ég hef hvað mestar áhyggjur af starfi yngri flokka sem koma langt að hvort sem það er frá Vestfjörðum, Austurlandi, að norðan eða sunnan á suðvesturhornið og því fylgir mikill kostnaður. Það þekkjum við foreldrar barna sem stöndum fyrir því að börnin okkar fái þau tækifæri að spila á landsbyggðinni á hinum ýmsu mótum.

Sammælst var um á sínum tíma á þingi, árið 2006 minnir mig að það hafi verið, að setja á laggirnar Ferðasjóð íþróttafélaga þar sem skilgreind voru ákveðin atriði til að uppfylla skilyrði til að fá úthlutað úr sjóðnum. Það var fyrst og fremst gert til að efla og passa upp á íþróttastarf á landsbyggðinni.

Síðustu ár hefur skiljanlega dregið úr þessum framlögum vegna aðhalds í ríkisfjármálum. En um leið undirstrikar þetta að vissu leyti stefnu stjórnvalda gagnvart þessum þætti málsins. Mér finnst það miður að enn sem komið er sjáum við ekki fyrir endann á því hvernig þróunin verður á ferðasjóðnum til þess að íþróttafólk á landsbyggðinni geti notið þeirra tækifæra sem felast í því að stunda íþróttir. Við fáum meðal annars ábendingar frá forsvarsmönnum félaga sem starfa á landsbyggðinni þar sem þeir lýsa yfir miklum áhyggjum.

Ég ætla til að mynda ekki að gagnrýna Flugfélag Íslands fyrir að hækka fargjöld. Ég held að það séu fullkomlega eðlilegar ástæður fyrir því. Það er eðlileg krafa allra að hér séu rekin flugfélög sem standa undir sér.

Hitt tel ég skipta miklu máli, að fá að vita hvað hæstv. ráðherra menntamála ætlar að gera til að spyrna við fótum í þá veru að íþróttastarf á landsbyggðinni minnki ekki eða verði umtalsvert minna út af þessum aukna kostnaði á undanförnum árum.

Hvað hefur ríkisvaldið gert til þess að fara í samvinnu við íþróttahreyfingar til að stuðla að því að leita lausna í þessu máli? Hver verður framtíð Ferðasjóðs íþróttafélaga? Hvernig mun ráðherra beita sér fyrir (Forseti hringir.) því að sú ógn sem við erum að spyrna við verði ekki, þ.e. að við munum horfa fram á minnkandi þátttöku fólks, ekki síst barna á landsbyggðinni? (Forseti hringir.)