141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

kostnaður við íþróttaiðkun landsbyggðarfólks.

136. mál
[17:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Við hljótum að taka mark á orðum forsvarsmanna íþróttafélaganna á landsbyggðinni. Þeir benda á að aukinn kostnaður hefur ekki síst íþyngjandi áhrif á möguleika barnanna okkar og barna um allt land til þess að stunda íþróttir. Við þessu þarf að bregðast.

Ég fagna því að menn tala jákvætt um ferðasjóðinn. Ég held að við höfum tekið hárrétt skref á sínum tíma en engu að síður er stefnumörkun þessarar ríkisstjórnar sú að dregið hefur úr framlögum sem er hugsanlega skiljanlegt en eftir stendur sú forgangsröðun sem blasir við.

Ég vona að við brennum ekki inni enn eitt skiptið þegar við bíðum í spenningi áður en fjárlög verða afgreidd undir lok ársins og sjáum fram á að ekki verði nein svör fyrr en í lok desember.

Ég held að það sé mikilvægt sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að horfa þurfi á málin í heild. Ég tel mikilvægt að íþróttahreyfingin fái svör frá ríkisvaldinu um hvaða stuðning það sjái fram á að veita, fjárhagslegan stuðning en líka annars konar óbeinan stuðning í verki, til að við getum haldið hér uppi öflugri íþróttastefnu. Í öflugri íþróttastefnu felst meðal annars að passa upp á að aðgengi landsmanna sé jafnt, tækifæri allra landsmanna til íþróttaiðkunar séu jöfn hvar sem þeir búa á landinu.

Síðan getum við að sjálfsögðu tekið hluta af íþróttastefnunni, sem er afreksstefnan. Hún er nokkuð sem ríkisvaldið verður að fara að svara skilmerkilega að mínu mati. Ég hef reyndar sjálf boðað að ég muni koma með þingsályktunartillögu sem verður með afreksstefnu í íþróttum, ekki bara fram yfir næstu Ólympíuleika sem verða í Brasilíu árið 2016 heldur til lengri tíma litið eins og aðrar þjóðir gera þannig að við getum strax á fyrri stigum byrjað að ýta undir þau börn og þá krakka sem tækifæri hafa til að verða afreksfólk í (Forseti hringir.) íþróttum og blómstra fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum 2020 og jafnvel 2024.