141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

kostnaður við íþróttaiðkun landsbyggðarfólks.

136. mál
[17:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég held að flestir hv. þingmenn hafi jákvæðan áhuga á þessu máli. Ég minni á að ferðasjóðurinn hefur oft verið til umræðu í þessum sal og mikil samstaða hefur verið um málin.

Ef við skoðum hins vegar söguna er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ríkisvaldið hefur ekki forgangsraðað fjárveitingum til íþróttamála þegar sagan er skoðuð langt aftur í tímann og ekki hefur orðið nein breyting þar á. Það er alveg rétt, það hefur ekki orðið breyting þar á í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar við lítum á framlög ríkis til íþróttamála tíu ár aftur í tímann er það rétt að þau hafa ekki aukist og þau eru lág á Íslandi miðað önnur ríki ef við skoðum til að mynda framlög annars staðar á Norðurlöndunum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Það er jákvætt að hv. þingmaður vill ná fram stefnubreytingu í þessu máli. Ég held að við getum verið sammála um það. Við höfum hins vegar sýnt þá forgangsröðun að draga talsvert minna úr framlögum til þessara sjóða íþróttanna og meira að segja náð að auka afrekssjóðinn þrátt fyrir niðurskurð á velflestum sviðum. Ég held að það sýni ákveðna forgangsröðun.

Ég held að aðalatriðið sé að við horfum á málið heildstætt og ég vonast til þess að við getum náð góðri samstöðu um það í þessum sal. Ég held að það séu ekki endilega mjög háar fjárhæðir í hinu stóra samhengi hlutanna sem þarf til að breyta miklu um stuðning við afreksíþróttamenn, sérsambönd og síðan börn og ungmenni sem taka þátt í íþróttum um land allt.