141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í umræðum á Alþingi í gær var fjallað um Evrópumálin. Ég hef áhuga á að halda þeirri umræðu áfram en frá algerlega öðru sjónarhorni og beina augum einkum og sér í lagi að EES-samningnum. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel að það sé afskaplega þýðingarmikið og tímabært fyrir okkur Íslendinga að fara heildstætt yfir EES-samninginn, kosti hans og galla og þróun að undanförnu.

Við höfum verið að reka okkur á það í meðförum ýmissa EES-mála á vettvangi utanríkismálanefndar og í þinginu almennt að ansi mikið er að togna á stjórnarskránni þar sem ýmis ákvæði EES-samningsins rekast í hana. Þetta eru hlutir sem við höfum upplifað í nokkur skipti, að minnsta kosti í tvö eða þrjú skipti, og vel er líklegt að meira muni reyna á það á næstunni en hingað til.

Í nýlegum dómi EFTA-dómstólsins var íslensk þýðing á regluverki Evrópusambandsins sett til hliðar og íslenskur aðili sem fór að öllu leyti eftir íslenskri þýðingartilskipun tapaði máli vegna þess að íslenska þýðingin var ekki talin nægilega rétt og hin enska þýðing skyldi vera upprunaleg. Hér eru því ýmis álitamál á ferðinni sem við þurfum einfaldlega að skoða, fara yfir EES-samningin og þau málefni.

Norðmenn gerðu mjög ítarlega og greinargóða skýrslu um EES-samninginn. Ég tel að við eigum kannski ekki að fara í jafnítarlega skýrsluvinnu og þeir, því að þeir eru þekktir fyrir langar og miklar skýrslur, en ég tel tímabært að fara yfir EES-samninginn, kosti hans og galla, og hvernig við ætlum að vinna til framtíðar. Ég er sammála því sem hæstv. utanríkisráðherra sagði í umræðum í gær að væntanlega er engin önnur leið fær en að gera breytingar á stjórnarskránni til að EES-samningurinn standist eða þá fara út úr EES-samstarfinu. Þetta þarf Alþingi Íslendinga að sjálfsögðu að ræða yfirvegað og með góðum undirgögnum og góðri vinnu. Ég hvet til þess að það verði gert.