141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú eru 11 dagar þar til þjóðin gengur að kjörborðinu og greiðir atkvæði um frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Það er eðlilegt að menn spyrji sig: Hvaða þýðingu mun sú atkvæðagreiðsla hafa? Hún er að sjálfsögðu mikilvægur áfangi á leið til að styrkja beint lýðræði í landinu en í mínum huga er ákvæðið um þjóðareign náttúruauðlinda þungamiðjan í frumvarpinu, það sem mestu mun skipta pólitískt til framtíðar.

Það er rétt að rifja upp að í þessu auðlindaákvæði segir meðal annars að leyfi til hagnýtingar auðlinda skuli veita gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Þá er kveðið á um að slík leyfi skuli veita á jafnræðisgrundvelli og að þau leiði aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Virðulegi forseti. Ég tel að ef frumvarpið verður samþykkt og þjóðareignarákvæðið fær meirihlutastuðning í kosningunni 20. október muni það hafa mikla þýðingu varðandi endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu á Íslandi. Það mun draga fram andstæðu núverandi kvótakerfis við kröfu um jafnræði við úthlutun nýtingarleyfa. Þá verður í auknum mæli kallað eftir lausnum sem uppfylla jafnræðiskröfuna með skýrari hætti en gert hefur verið í þeim frumvörpum sem við höfum verið með til meðferðar hér í þinginu á undanförnum missirum. Krafan um jafnræði samrýmist illa því fyrirkomulagi að takmörkuðum gæðum, eins og kvótum til veiða úr sameiginlegum fiskstofnum þjóðarinnar, sé fyrst og fremst úthlutað til forgangshópa án þess að öðrum gefist tækifæri til að keppa um þau gæði.

Jafnræðiskrafan leggur á herðar okkar þær skyldur að skapa þau skilyrði að mismunandi aðilar geti keppt um aðgengi að hinum takmörkuðu gæðum með opnum og gagnsæjum hætti. Öflugur og vaxandi leigumarkaður með aflaheimildir sem tryggir eðlilega verðmyndun kvóta er þar nærtækur kostur. Meginverkefni stjórnvalda á næstu árum verður að finna eðlilegt jafnvægi milli kröfunnar annars vegar um jafnræði og atvinnufrelsi og hins vegar kröfunnar um arðsemi og stöðugleika í þessari mikilvægu atvinnugrein.