141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að varpa ljósi á þann vanda Alþingis og alþingismanna sem við höfum staðið frammi fyrir frá síðustu kosningum og tek ég þá fyrir eitt mál sem sýnir hve tíma bæði þingnefnda og þingsins er illa varið.

Þann 23. september 2011 voru samþykkt lög um Stjórnarráð Íslands. Tóku þau miklum breytingum í meðförum þingsins og varð málið mjög umdeilt og mikill tími fór í það á þinginu að ræða þessar breytingar á Stjórnarráðinu. En á lokametrum þingsins var það krafa þeirra sem studdu ríkisstjórnina að setja ætti inn í lögin ákvæði um að allir fundir ríkisstjórnarinnar skyldu hljóðritaðir og afritið af þeim hljóðritunum skyldi geymt í 30 ár. Þau lög áttu að taka gildi 1. janúar 2012.

Úr því að ekki var hægt að hlusta á fræðimenn sem komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var gripið til þess ráðs að keyra málið í gegn með þessum hætti því að ekki var búið að ganga frá því hverjir hefðu aðgang að fundargerðum ríkisstjórnarinnar, þessum hljóðupptökum. Hægt er að komast í þessar hljóðritanir, meðal annars hjá sérstökum eftirlitsaðilum, saksóknara, Alþingi og landsdómi og einnig geta ráðherrarnir það sjálfir. Færslur fyrri ríkisstjórnar gæti ný ríkisstjórn skoðað. Fræðimenn á þessu sviði vöruðu mjög við þessu þannig að gildistökuákvæðinu var enn á ný frestað til 1. nóvember sem nú er fram undan.

Frú forseti. Nú er málið að koma í þriðja sinn fyrir þingið. Það kemur til með að taka mikinn tíma frá nefndinni og frá Alþingi sjálfu að finna út úr því hvernig leysa eigi þetta mál. Annaðhvort er að breyta fimm eða sex lögum til að þetta ákvæði verði virkt eða láta það fara þannig fram að þessar hljóðritanir séu leyfðar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur málið til meðferðar. Ég hef lagt fram tillögu um að ákvæðið skuli fellt niður en það sýnir hve stuðningurinn við ríkisstjórnina er dýrkeyptur.