141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgun heimsótti allsherjar- og menntamálanefnd þingsins Háskóla Íslands. Var það afskaplega fróðleg heimsókn og væri hægt að taka margt af því sem við ræddum þar til umræðu hér í þinginu, t.d. um aukið samstarf og mikilvægi sameininga á háskólastiginu til að viðhalda og efla þrótt þess skólastigs.

Við ræddum sérstaklega hve mikilvægt væri að taka til alvarlegrar endurskoðunar ákvörðun sem var tekin á þinginu fyrir nokkrum árum, þverpólitískt á þeim tíma, um að lengja nám leikskólakennara úr þremur árum í fimm. Ljóst er að sú ákvörðun hefur meðal annars orðið til þess að fækkun nemenda í leikskólanáminu á fyrsta ári er 77%. Það er algert fall í aðsókn að þessu námi og ekki er hægt að horfa fram hjá því að lengingin úr þremur árum í fimm hlýtur að vega þungt.

Um daginn barst ákall til okkar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að taka þetta til endurskoðunar af því að það markmið að 2/3 starfsmanna leikskólanna væru menntaðir væri ekki að nást heldur væri það að verða fjarlægara en nokkurn tíma áður. Rétt um þriðjungur starfsmanna á leikskólum er með leikskólakennaramenntun og það kallar á endurskoðun á málinu.

Eitt er það að taka það þannig upp að nemendur geti hafið störf með réttindi eftir þriggja ára nám eins og áður og svo séu eitt til tvö ár í viðbót við það til að fara ekki með öllu frá þessu. En við þurfum að endurskoða þetta mjög gagngert af því að bráður vandi steðjar að leikskólunum. Ekki er hægt að líta fram hjá þessu afdráttarlausa ákalli frá sveitarstjórnarstiginu sem ber ábyrgð á rekstri leikskólanna. Við þurfum að bregðast við þessu.

Það var bratt farið að lengja þetta úr þremur árum í fimm og reyndin er sú að 77% fækkun í aðsókn að náminu getur ekki gengið. Það skaðar leikskólastigið og gerir sveitarfélögunum erfitt um vik að uppfylla þetta mikilvæga hlutverk sitt. Það er okkar að taka þetta til endurskoðunar.