141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir að fá að taka til máls undir liðnum um störf þingsins til að koma með yfirlýsingu um þessa atkvæðagreiðslu. Ég mun kjósa 20. október og ég mun segja nei við grundvallarspurningunni.

Mér fannst svar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur mjög athyglisvert þar sem hún tíndi upp hin og þessi atriði úr tillögum stjórnlagaráðs. Auðvitað eru þær margar og margvíslegar, sumum þeirra er ég sammála og öðrum ekki. Til að mín afstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni verði ekki túlkuð sem svo að ég vilji að allar tillögur stjórnlagaráðs verði að nýrri stjórnarskrá verð ég að segja nei og ég mun segja nei.

Það eru ýmis atriði í stjórnarskránni sem þarft er að fara yfir og hugsanlega gera breytingar á en ég tel að við séum alveg í stakk búin til að gera það hér á löggjafarsamkundunni. Mér sýnist að sumir hafi tekið upp þann hátt að vera ekki sammála því að við séum stjórnarskrárgjafinn. Það verða menn að eiga við sjálfa sig.

Ég vil hvetja fólk til að mæta á kjörstað 20. október og kjósa. Ég hvet alla sem hafa tök á því að kynna sér þessar 115 tillögur og lýsa því einfaldlega yfir hvort það sé sammála þeim öllum eða ekki með því að segja já eða nei. Ef fólk er ekki sammála þeim öllum verður það að segja nei.