141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur mikið verið rætt um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs, þá stóru skoðanakönnun. Ég ætla ekki að ræða hana mikið efnislega en sú umræða sem hefur verið hér í dag og undanfarna daga fær mig til að hugsa um þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í öllu þessu ferli og þá ágalla sem eru á því. Við vitum hvernig þetta hefur verið í þinginu. Hvert einasta skref hefur verið í átakaferli og menn ekki sammála. Nú ætla ég ekki að segja hver hefur rétt fyrir sér og hver hefur rangt fyrir sér. Ég er ósammála þeirri leið sem þarna hefur verið farin en það er réttur minn að hafa þá skoðun.

Það sem skiptir máli í þessu samhengi er: Um hvað erum við að tala? Við erum að tala um stjórnarskrána, grundvallarlögin í þjóðfélaginu. Við í nefnd sem falið er að skrifa þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, undir formennsku hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, vorum um daginn á ferð í Noregi. Þar hittum við þingmenn og fræddumst um vinnulag í norska þinginu. Það vakti athygli mína að þar er nefnd, kölluð stóra nefndin eða stækkaða nefndin, sem í eru utanríkis- og varnarmálanefndarmenn auk forseta þingsins og þingflokksformanna og ef til vill eru þar einhverjir fleiri sem ég er að gleyma. Þarna hittast menn og ræða viðkvæm mál, öryggis- og varnarmál og annað sem Norðmenn eru einhuga um að vera sammála um út á við og takast á um inn á við. (Forseti hringir.) Þeir taka erfið mál, leiða þau til lykta og taka tillit til skoðana hver annars. (Forseti hringir.) Kannski er það ferlið sem við hefðum átt að fara með stjórnarskrármál í, kannski er það ferlið sem við ættum að setja málið í að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) og þingið á að fá að klára þessa vinnu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörkin.)