141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég fagna því að við ræðum um eina mikilvægustu og merkilegustu þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég hef á ævinni tekið þátt í, hún mun eiga sér stað eftir 11 daga. Ég fagna því að sumir þingmenn hér inni líta á þetta sem atkvæðagreiðslu þó að vissulega sé hægt að kalla allar atkvæðagreiðslur skoðanakönnun, líka atkvæðagreiðslur til Alþingis.

Mér finnst það alvarlegt mál að fjölmargir þingmenn frá Sjálfstæðisflokknum og frá Framsóknarflokknum, þó ekki allir, gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá. Mér finnst (Gripið fram í: … verið að kjósa …) það þinginu til vansa að slíkar skoðanir komi fram hér. Ég gagnrýndi ríkisstjórnarflokkana fyrir að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave (Gripið fram í.) og ég gagnrýni Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn nú fyrir að kalla þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem við förum í eftir 11 daga skoðanakönnun. (Gripið fram í.) Það er ómerkilegur málflutningur og ég skora á fólk og hvet það til að nýta sér þann lýðræðislega rétt (Gripið fram í: Já.) sem við höfum í lýðræðisríkjum til að kjósa, hvort sem fólk velur að segja já eða nei. Ég hvet fólk eða þingmenn til að kynna sér ályktunina. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum það í huga að mjög mikið veltur á því hversu margir mæta á kjörstað og taka þátt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu [Kliður í þingsal.] — ef ég gæti fengið hljóð, hv. þm. Vigdís. Það er mjög mikilvægt að við höfum þennan leiðarvísi um hvernig við ætlum að halda áfram að vinna þetta mál á þinginu. (Gripið fram í: Er þetta bindandi?) (Forseti hringir.) Nei, það er ekki bindandi en þingmönnum (Forseti hringir.) ber að fara eftir þjóðarvilja. (Forseti hringir.) [Kliður í þingsal.]