141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:09]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um að ræða þingmál sem felur í sér tillögu um ákveðna málsmeðferð. Það hefur verið lengi í undirbúningi hjá þinginu að afgreiða það. Í allt má segja að málið eigi sér allt að tveggja áratuga sögu en það hefur ratað í pólitískar skotgrafir og þingsályktunartillaga þessi gengur út á það að við náum málinu þaðan aftur upp. Ég vitna til þess að á fyrri stigum málsins var frumkvæði þess að meira eða minna leyti í iðnaðarráðuneytinu.

Á síðasta þingi, þegar rætt var um rammaáætlun, var atvinnuveganefnd þingsins með málið til meðferðar. En jafnvel þótt meiri hluti þingsins hafi tekið annað mál hæstv. umhverfisráðherra um rammaáætlun í heild sinni og sent til umhverfisnefndar af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er ekkert tilefni til að þessi tillaga fari þangað. Þetta er annað mál, (Forseti hringir.) það fjallar um form málsins, um það hvernig við tökum það inn í framtíðina. Tillagan á að mínu áliti hvergi annars staðar heima en í atvinnuveganefnd.