141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Allir vita það sem verið hafa í þessum sal síðustu vikur og mánuði að ástæðan fyrir því að meiri hlutinn tók þá ákvörðun um daginn að vísa málinu til umhverfis- og samgöngunefndar hafði ekkert með þingsköp að gera eða málið að öðru leyti en því að margir álitu að atvinnuveganefnd væri öðruvísi samsett en umhverfis- og samgöngunefnd. Það væru aðrir fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd en í umhverfis- og samgöngunefnd. Það var auðvitað skýringin á þeirri sveiflu sem átti sér stað um daginn.

Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði upp með, hér er um annað mál að ræða, aðra málsmeðferð, og það er ekkert óeðlilegt að málið fari í atvinnuveganefnd. Minna má á að málið var til umfjöllunar í atvinnuveganefnd á síðasta vetri en auðvitað sker þingið (Forseti hringir.) úr um það. En menn verða að mínu mati að vera dálítið ærlegri þegar þeir gefa skýringar á því til hvaða nefnda (Forseti hringir.) þeir ætla að vísa einstökum málum.